Átak gegn hraðakstri og beltaleysi
Lögreglan á Suðurnesjum verður með átaksverkefni nú í maí varðandi umferðina. Maímánuður hefur oft verið erfiður hvað varðar umferðaróhöpp og slys. Margar ástæður nefndar í því sambandi. t.d. betri akstursskilyrði og meiri hraði. Í komandi umferðarátaki mun lögreglan hafa afskipti af og kæra þá sem nota ekki öryggisbelti. Það við alla sem í bifreiðinni eru. Átakið fer fram í öllum sveitarfélögum Suðurnesja og munu bæði lögreglumenn á bifhjólum og í lögreglubifreiðum taka þátt í átakinu. Markmiðið er að fjölga þeim sem nota öryggisvelti og fækka slysum. Að sama skapi verður tekið á hraðakstri og áhersla sett á Grindavíkurveg, Sandgerðisveg og Garðskagaveg. Einnig verður átakið í þéttbýli og þá í sérstökum götum í samráði við bæjaryfirvöld á hverjum stað.
Úr skýrslu Umferðarstofu um umferðarslys á Íslandi 2009 má lesa eftirfarandi;
Af þeim 12 manns sem létu lífið í bifreið var aðeins helmingurinn með bílbelti. Í nýlegri könnun sem Capacent vann fyrir Umferðarstofu kemur fram að á sex mánaða tímabili (ca. maí ´09 – október ´09) var aðeins fjórðungur sem einhverju sinni hafði ekið innanbæjar án beltis og aðeins 6% aðspurðra hafði ekið utanbæjar án bílbeltis. Það er því ljóst að þeir fáu sem aka án bílbeltis eru í talsvert meiri hættu en hinir sem spenna beltin. Af þeim 9 sem létust í bifreið utanbæjar voru aðeins 4 í belti og 5 án bílbelta. Ef við skoðum umrædda könnun og heimfærum þessar prósentur yfir á fjöldatölur og miðum við 300.000 Íslendinga má segja að 18.000 Íslendinga eigi það til að aka utanbæjar án belta en 282.000 Íslendingar geri það aldrei. Ljóst er að þeir 5 sem létust án belta tilheyrðu fyrri hópnum en ekki er vitað með hina 4 en við gefum okkur að þeir tilheyri seinni hópnum. Þannig má reikna út að í hópi þeirra sem á það til að gleyma beltunum létust 0,028% en í hópnum sem notar alltaf belti létust 0,0014%. Þetta segir okkur að 20 sinnum fleiri létust í hópnum sem notar ekki alltaf belti heldur en í hópnum sem notar alltaf belti. Á þessu má ljóst vera að beltin bjarga.