Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 3. maí 2000 kl. 17:05

Ástin og þú...

Myndavélin sem tekur myndir af lungum þínum elskar þig en þú tekur ekki eftir ást hennar. Eða jú. Þegar þú fórst úr bolnum og hörund þitt snerti í fyrsta sinn spegilslétt stálið, þá tókstu eftir ást hennar en gleymdir hennni strax. Konurnar á bakvið myndavélina elska þig líka. Og framköllunartækið. Og ljósið sem lýsir bakvið nýju röntgenmyndina af lungum þínum. Fingurinn á lækninum. Línurnar, myrkrið og þokan sem búa til myndina. Þau elska þig. En þú ert bara ekki tilbúinn enn. (Kristín Ómarsd.) Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er starfrækt röntgendeild sem þjónar öllum Suðurnesjunum og öðru fólki sem leitar til okkar. Allir eru velkomnir svo framarlega sem þeir hafa beiðni frá lækni um röntgenmyndatöku eða ómskoðun. Á deildinni starfa þrír röntgentæknar sem skipta með sér tveim stöðugildum. Telst það til forréttinda að hafa þrjá faglærða starfsmenn þar sem mikill skortur er á röntgentæknum á Reykjarvíkursvæðinu og á landsbyggðinni. Einn röntgenlæknir sem er í hálfri stöðu starfar við deildina. Kemur hann tvisvar í viku, les úr myndum og gerir þær skyggnirannsóknir sem læknir þarf að framkvæma. Má þar nefna bláæðarannsóknir, ristilrannsóknir,vélinda- og magarannsóknir. Þá framkvæmir hann allar almennar ómrannsóknir bæði innvortis og af útlimum. Tækjabúnaður deildarinnar var endurnýjaður árið 1990 svo að segja má að tími sé kominn til að endurnýja aftur. Eðlilegt er að svona tækjabúnaður endist í 8 til 10 ár. Gæði þjónustunnar hafa þó ekki rýrnað en við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur og vera búin að endurnýja áður en tækin gefa sig. Móbillinn (færanlegt röntgentæki) er þó þegar ónýtur svo okkur bráðvantar nýjan. Þetta tæki er notað til að mynda veikt fólk á sjúkradeildum og einnig á skurðstofu. Einnig er hægt að nota hann ef aðaltækið bilar þannig að ekki þarf að loka deildinni. Þá væri gott að geta notað móbílinn til að brúa bilið þegar ný tæki verða sett upp. Það er von okkar að þeir sem stjórna í Heilbrigðisráðuneytinu verði við kröfu okkar um fjárveitingu fyrir nýjum tækjum. Þar sem fjöldi rannsókna á H.S.S. hefur aukist með hverju ári þá er plássleysið farið að segja verulega til sín. Myndir og gögn eru nú geymd á fjórum stöðum en með væntanlegri tilkomu D-álmu þá er gert ráð fyrir að röntgendeildin fái það pláss sem rannsóknarstofan er í núna og horfum við björtum augum til þeirra breytinga. Opnunartími röntgendeildar er frá 08.00 til 15.30 og bakvakt til 24.00 virka daga en um helgar er bakvakt frá 08.00 til 24.00. Engin vakt er á nóttunni en ef upp koma bráðatilfelli sem ekki geta beðið eru þau send til Reykjavíkur. Við á „Röntgen“ reynum ávallt að veita sem besta þjónustu og viljum gjarnan vinna í þeim anda sem kemur fram í ljóðinu hér að framan. Kveðja Jórunn Garðarsdóttir Yfirröntgentæknir H.S.S.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024