Ásta Dís vill vera áfram í Fríhöfninni
Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar sem var í hópi umsækjenda um stöðu bæjarstjóra í Hafnarfirði, hefur dregið umsókn sína til baka.
„Ástæður þess eru nokkrar en fyrst og fremst sú að mér hafa borist fjölmargar áskoranir frá samstarfsfólki mínu um að vinna áfram að þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru hjá Fríhöfninni. Sú mikla aukning ferðamanna til landsins hefur ekki farið framhjá neinum og það eru stór og viðamikil verkefni framundan hjá félaginu, m.a. miklar breytingar á brottfararverslun okkar sem og niðurstöður úr því útboði sem nú er á Keflavíkurflugvelli.
Fríhöfnin hefur hlotið fjöldann allan af viðurkenningum og verðlaunum á undanförnum árum, m.a. sem besta Fríhöfn Evrópu 2013 og við viljum halda henni í fremstu röð áfram, enda mikið í húfi fyrir alla hagsmunaaðila,“ segir Ásta Dís í tilkynningu sem hún sendi.