Ásmundur staðfestir framboð í Rangárþingi ytra
Ásmundur Friðriksson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og fyrrverandi bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Garði, hefur staðfest að hann hafi tekið áskorun um að gefa kost á sér í oddvitasætið hjá sjálfstæðismönnum í Rangárþingi ytra.
„Tækifærið er spennandi og ég gaf mínu fólki fyrir austan loforð um að bjóða mig fram sem sveitarstjóraefni. Frestur rennur út um miðjan febrúar og að óbreyttu fer ég í framboð,“ segir Ásmundur í viðtalið við Morgunblaðið í dag.
Rangárþing ytra spannar svæðið milli Eystri-Rangár og Þjórsár; frá fjöru og inn á fjöll. Ásmundur var á ferð um svæðið um helgina og ræddi við fólk um landsins nauðsynjar og verkefnin fram undan, segir í frétt Morgunblaðsins.
„Ég kann vel við mig hér í Rangárþingi ytra og ég á hér vini á nánast öðrum hverjum bæ. Konan mín, Sigríður Magnúsdóttir, er frá Lyngási, skammt frá Hellu og hér í sveit eigum við sumarhús. Á þessum slóðum á ég trausta stuðningsmenn og góða vini,“ segir Ásmundur sem hefur flutt lögheimili sitt að Árbæjarhjáleigu í Holtum.