Ásmundur Friðriksson sækist eftir 3. sæti
Ásmundur Friðriksson fv. bæjastjóri í Garði hefur ákveðið að gefa kost á sér á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í vor. Kjördæmisráð í Suðurkjördæmi ákveður fyrirkomulag við val á listann á næstunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ásmundi. Þar segir jafnframt:
„Í störfum mínum sem þingmaður vil ég ná árangri undir þjónandi forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir hinn vinnandi mann. Eina leiðin til að bæta lífskjörin og tryggja velferð og réttlæti er að veita fólkinu í landinu frelsi til athafna í opnu og frjálsu samfélagi. Þingmennska er starf sem gefur mér tækifæri til að berjast fyrir hagsmunum fólksins;
· fyrir öflugu atvinnulífi,
· fyrir störfum sem ég þekki af eigin raun til sjávar og sveita,
· fyrir menntun og nýsköpun,
· fyrir tengslum atvinnulífs og skóla,
· fyrir framtíð unga fólksins,
fyrir virkni og þátttöku fatlaðra í samfélaginu,
fyrir sanngjarnri leiðréttingu verðtryggðra lána,
fyrir þá sem hafa tapað trúnni á þjóðfélagið.
Í störfum mínum fyrir íþróttahreyfinguna, mannræktarfélög og sem bæjarstjóri í Garði hef ég verið þjónn fólksins.
Skilvirkni og einlægni í störfum mínum er lykillinn að góðum starfsárangri sem ég vil nýta mér í þágu Suðurkjördæmis ef ég fæ til þess styrk.
Hagsmunir almennings í landinu eiga að ganga fyrir. Þar mun ég láta verkin tala og þjóna fólkinu á mannlegum nótum.
Með þessari ákvörðun er ég að svara kalli fjölda fólks sem hefur hvatt mig eindregið til þátttöku í stjórnmálum í fremstu röð.
Ég sækist því eftir 3ja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar.“
Ásmundur Friðriksson fv. bæjarstjóri í Garði.