„Ask Guðmundur“ herferðin hlaut fimm verðlaun
Íslenska auglýsingastofan hlaut fern verðlaun fyrir „Ask Guðmundur“ herferðina á Euro Effie verðlaunahátíðinni í byrjun vikunnar. Herferðin var hluti af Inspired by Iceland herferð Íslandsstofu. Frá þessu var greint á vef Viðskiptablaðsins. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Brussel í Belgíu í fyrrakvöld.
„Ask Guðmundur, The Human Search Engine“ var herferð á samfélagsmiðlum þar sem fólk alls staðar að úr heiminum gat spurt Íslendinga sem allir heita Guðmundur eða Guðmunda ýmissa spurninga um Ísland. Hver landshluti tefldi fram sínum Guðmundi og á Reykjanesi var það Guðmundur Steinarsson, kennari og knattspyrnumaður sem svaraði spurningum fróðleiksfúsra. Spurningum svöruðu Guðmundarnir og Guðmundurnar í myndböndum sem dreift var á samfélagsmiðlum. Yfir þúsund spurningar bárust á meðan á herferðinni stóð frá fimmtíu löndum víðs vegar um heiminn.
Íslenska auglýsingastofan var tilnefnd til verðlauna í fjórum flokkum og sigraði í þeim öllum og fékk einnig sérstök Grand Prix dómaraverðlaun.
Hér má sjá nokkur myndbönd þar sem Guðmundur Steinarsson svarar spurningum um Ísland