ASÍ reiknar ekki með Helguvík í ár
Hagdeild Alþýðusambandsins gerir ekki ráð fyrir framkvæmdum við álver í Helguvík á þessu ári í hagspá sinni. Í henni segir að þungi framkvæmdanna muni færist yfir á mitt árið 2011 og síðan seinki framkvæmdum sem því nemur. ASÍ segir m.a. erfiðleika við fjámögnun og útfærslu á fyrirhuguðum auðlindagjöldum hafa áhrif á framvinduna.
„Mikil óvissa ríkir um mörg fjárfestingarverkefni sem fyrirhuguð eru á næstunni vegna erfiðleika við fjármögnun og almennrar óvissu um þróun efnahagsmála. Staða margra fyrirtækja er erfið, mikil skuldsetning í erlendri mynt, hár vaxtakostnaður og minnkandi eftirspurn veita lítið svigrúm til frekari uppbyggingar á næstunni. Þar að auki má búast við endurskipulagningu í rekstri og fjármálum margra fyrirtækja á næstu mánuðum. Spá okkar gerir ráð fyrir því að farið verði í framkvæmdir við endurbætur á álverinu í Straumsvík á fyrri hluta næsta árs en tafir verði á framkvæmdum við álver í Helguvík og þær fari ekki á fullt skrið fyrr en á síðari hluta næsta árs.Þessum verkefnum munu einnig fylgja framkvæmdir við orkuver sem sjá eiga álverunum fyrir raforku. Enn eru ýmsir þættir óljósir sem geta haft áhrif á þessi framkvæmdaráform, eins og erfiðleikar við fjármögnun, útfærsla á fyrirhuguðum auðlindagjöldum og áhrif af ákvörðun umhverfisráðherra um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat vegna Suðvesturlínu, “ segir í skýrslu hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum 2009-2012.
Skýrslu ASÍ um horfur í efnahagsmálum 2009-2012. er hægt að nálgast á vef ASÍ hér
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson.