Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

ASÍ lýsir þungum áhyggjum af atvinnulífi á Suðurnesjum
Miðvikudagur 22. mars 2006 kl. 17:11

ASÍ lýsir þungum áhyggjum af atvinnulífi á Suðurnesjum

Miðstjórn ASÍ sendi núna síðdegis frá sér ályktun þar sem lýst er þungum áhyggjum yfir atvinnulífi á Suðurnesjum. Í ályktunni leggur ASÍ áherslu á að sómasamlega verði staðið að starfslokum þeirra sem missa vinnuna við brottför Varnarliðsins. Annars er ályktunin svohljóðandi:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir þungum áhyggjum yfir horfum í atvinnulífi á Suðurnesjum, í kjölfar fyrirvaralausrar ákvörðunar bandarískra stjórnvalda um að draga stórlega úr umsvifum í herstöðinni á Miðnesheiði.

Þessi ákvörðun mun hafa mikil áhrif á störf og afkomu um sex hundruð launamanna og fjölskyldna þeirra á Suðurnesjum sem eru í beinni þjónustu hersins auk hundruða annarra vegna neikvæðra margfeldisáhrifa. Miðstjórn leggur áherslu á að sómasamlega verði staðið að starfslokum þeirra sem missa vinnuna og væntir þess að hugað verði sérstaklega að því fólki sem líkur eru á að eigi erfitt með að finna annað starf, til dæmis vegna aldurs. Miðstjórn telur afar mikilvægt að virkar vinnumarkaðsaðgerðir á svæðinu verði efldar, sérstaklega með auknu fjármagni í starfs- og endurmenntun þessa fólks.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að íslensk og bandarísk stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að draga úr áhrifum þessara breytinga fyrir þetta starfsfólk og samfélagið á Reykjanesi. Í því sambandi verði m.a. horft til þess að nýta búnað og aðstöðu sem til staðar er til nýrrar uppbyggingar atvinnutækifæra á svæðinu, en það er skylda bandarískra stjórnvalda að leggja sitt af mörkum til að skapa því fólki ný störf sem hefur þjónað varnarliðinu, sumt alla sína starfsævi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024