Ásgeir Margeirsson hættir sem forstjóri HS Orku
Stjórn HS Orku hf. og forstjóri félagsins, Ásgeir Margeirsson, hafa komist að samkomulagi um starfslok. Staðan verður auglýst og Ásgeir gegnir starfinu þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir í tilkynningu: „Ég mun kveðja samstarfsfólk mitt með stolti. Að baki eru 6 ánægjuleg ár þar sem ég hef leitt þetta félag í gegnum verulegar áskoranir og mikið vaxtaskeið. Nýr forstjóri mun taka við góðu búi, framundan eru mikilvæg og umfangsmikil verkefni svo sem að ljúka framkvæmdum og gangsetja Brúarvirkjun, framkvæmdir við stækkun Reykjanesvirkjunar um 30 MW og endurnýjun og stækkun í orkuveri félagsins í Svartsengi. Um leið og ég þakka samstarfsmönnum frábært samstarf óska ég félaginu allrar velgengni í framtíðinni.“
Bjarni Þórður Bjarnason, stjórnarformaður HS Orku, segir í sömu tilkynningu: „Ásgeir hefur um langa hríð verið lykilmaður í íslenska orkuiðnaðinum og leitt fyrirtækið farsællega í gegnum mikið breytingaskeið. Eftir stendur myndarlegt fyrirtæki og góður árangur þess hefur endurspeglast í ríkum áhuga á félaginu jafnt frá lánveitendum og fjárfestum. Stjórn HS Orku þakkar Ásgeiri sérstaklega fyrir störf hans í þágu félagsins.“
Þessar breytingar voru kynntar starfsmönnum á almennum starfsmannafundi í dag.