Ásdís Elma og Ásta Maren fengu aðalverðlaun Nýsköpunarkeppni grunnskólanna
Ásdís Elma og Ásta Maren nemendur í 7. bekk í Sandgerðisskóla unnu aðalverðlaun Nýsköpunarkeppni grunnskólanna með hugmynd sinni um samanbrjótanlegan hjálm. Alls tóku 31 grunnskóli víðsvegar um landið þátt í keppninni.
Nýsköpunarkennsla hefur verið stór þáttur af náttúrufræðikennslu 7. bekkjar í vetur í umsjón Ragnheiðar Ölmu Snæbjörnsdóttur og Guðrúnar Óskar Gunnlaugsdóttur. Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. til 7. bekk grunnskóla. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og hefur verið haldin, óslitið síðan. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða annarri kennslu á skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni út frá sínu áhugasviði, allt frá hugmynd til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.
Eyjólfur Brynjar Eyjólfsson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands afhenti þeim Ásdísi og Ástu vegleg verðlaun og verðlaunagrip að viðstöddum kennurum, stjórnendum, aðstandendum og bæjarstjóra Suðurnesjabæjar.