Ásbrú: Ákvörðun Reykjanesbæjar snertir ekki KADECO
Reykjanesbær samþykkti á sínum tíma að innheimta ekki opinber gjöld af ónotuðum fasteignum á Ásbrú. Bæjarráð Reykjanessbæjar telur forsendur brostnar fyrir þessari ákvörðun og segir ógjörning fyrir bæjarfélagið að gefa slíkan afslátt af opinberum gjöldum á meðan ríkið taki til sín verulegan hagnað af svæðinu.
Í gær var greint frá því að ríkissjóður hafi tekið til sín 2500 milljónir króna frá Ásbrú á sama tíma og Reykjanesbær segir kostnað sinn af svæðinu umfram tekjur vera 700 milljónir króna. Í gærmorgun samþykkti bæjarráð Reykjanesbæjar að fella úr gildi yfirlýsingu bæjarnins frá 17. október 2007 um að ekki verði innheimt opinber gjöld af öllum fasteignum á Ásbrú. Ákvörðun bæjarráðs tekur gildi nú um áramótin.
Þessi ákvörðun Reykjanesbæjar snertir ekki Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, KADECO, þar sem skýr heimild ríkissjóðs er í lögum 176/2006 um undanþágu frá fasteignagjöldum sem á við um þær eignir sem KADECO hefur umsýslu á fyrir hönd ríkisins. Því á yfirlýsing Reykjanesbæjar um afturköllun á eftirgjöf fasteignagjalda ekki við um KADECO og þær eigir sem félagið höndlar fyrir ríkið.
Ákvörðun bæjarins mun hins vegar snerta þá aðila sem keypt hafa eignir af KADECO en ekki komið þeim í notkun. Um 1000 íbúðir standa í dag auðar á Ásbrú, sem eru í eigu annarra en KADECO. Fasteignagjöld af þessu ónotaða íbúðahúsnæði eru áætlaðar 30-40 milljónir króna á ári.
Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri KADECO, staðfestir að yrir nokkrum dögum síðan hafi KADECO borist erindi frá Reykjanesbæ um kostnað sveitarfélagsins af uppbyggingu á svæðinu. Þar voru eins og í bókuninni frá því í gær birtar sömu tölur um þann kostnað sem sveitarfélagið telur sig hafa orðið fyrir. Kjartan segir í samtali við Víkurfréttir að ekki megi gleyma ábata sveitarfélagsins af uppbyggingunni á Ásbrú bæði til lengri og skemmri tíma þrátt fyrir tímabundinn kostnað sveitarfélagsins af slíkri uppbyggingu.
„Þessar tölur þarf þó að fara betur í gegnum og sjá hvort þær séu byggðar á réttum forsendum. Til að mynda eru miklar útsvarstekjur að skila sér í öðrum hverfum Reykjanesbæjar vegna þeirra starfsmanna sem vinna að uppbyggingu og við ýmis verkefni á svæðinu og búa ekki á Ásbrú. Nú veit ég ekki t.d. hvort þær tölur eru teknar þarna inn í. Við bíðum eftir frekari gögnum frá Reykjanesbb sem styðja þeirra útreikninga,“ segir Kjartan.
„Það hefur þó verið öllum ljóst alveg frá upphafi að kostnaður fylgir slíkri uppbyggingu í byrjun. Markmiðið er þó að á endanum hafi þeir aðilar sem leggi af mörkum í slíka uppbyggingu hafi ábata af henni. Þar held ég að enginn þurfi að efast um langtímatækifærin sem tengd eru uppbyggingunni á Ásbrú. Mikið hefur nú þegar gerst á þeim stutta tíma frá því að herinn fór og búið að leggja mikilvægan grunn að framtíðar uppbyggingu. Þar hefur Reykjanesbær komið myndarlega að málum og stutt vel við verkefnið varðandi alla þá þætti sem sveitarfélagið hefur getað lagt til í slíka þróun,“ segir Kjartan Þór Eiríksson hjá KADECO.