Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 10. maí 2002 kl. 16:14

Ársskýrsla leikskóla Reykjanesbæjar komin út

Sameiginleg ársskýrsla leikskóla í Reykjanesbæ 2000 - 2001 hefur verið gefin út. Alls starfa sjö leikskólar í Reykjanesbæ en nýr leikskóli, Hjallatún, tók til starfa 8. janúar 2001. Allir leikskólar Reykjanesbæjar vinna nú að skólanámskrárgerð samkvæmt aðalnámskrá leikskóla og er sú vinna komin vel á veg en leikskólinn Vesturberg var á dögunum fyrstur til þess að gefa út sína skólanámskrá.
Biðlisti eftir leikskóladvöl er minni en undanfarin ár og má þakka það tilkomu nýs leikskóla. Eftirspurn eftir heilsdagsrýmum hefur enn aukist og er mikil ásókn í lengingu á vistun fyrir börn sem eru í 5 og 6 klst. Áhyggjuefni er hversu langan dag börnin eiga í skólanum en ekki er óalgengt að börn dvelji í 9-10 stundir í leikskólanum á dag.

Erfiðlega reyndist að ráða starfsfólk í leikskólana síðastliðið haust og margir starfsmenn stóðu stutt við í leikskólunum. Veikindi og fjarvistir starfsmanna sköpuðu einnig mikið vandamál. Ástæður þessa voru m.a. þensla og mikið framboð á vinnumarkaði. Þrátt fyrir þessa erfiðleika hafa kraftmiklir leikskólastjórar og öflugir starfmannakjarnar haldið uppi góðu og faglegu starfi í leikskólunum

Átak í umhverfismálum er orðið hefðbundið í nær öllum leikskólunum þar sem áhersla var lögð á flokkun á sorpi, endurvinnslu og notkun jarðgerðarkassa fyrir lífrænan úrgang. Markmiðið er að efla náttúruvitund barnanna með því að fræða börnin um náttúruna, umhverfið og verndun þess. Rík áhersla var lögð á samskipti og samvinnu með börnunum og þeim kennt að sýna tillitssemi og nærgætni.

Umhirða trjágróðurs og beða hefur verið nokkrum vandkvæðum bundið sl. tvö ár. Ef horft er til framtíðar þarf að huga vel að þeim þætti og hlúa að þeim gróðri sem fyrir er, auk þess að gróðursetja ný tré þar sem við á en umfram allt verður skipulagning umhirðunnar að vera í lagi. Það er von leikskólanna að Reykjanesbær sjái til þess að trjágróður á lóðum leikskólanna leggist ekki af.

Starfsþjálfunarnámskeið fyrir leiðbeinendur í leikskólum sem haldið er í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum var haldið í þriðja skiptið á liðnu starfsári og er það án efa besta leiðin til að hvetja leiðbeinendur í leikskólunum til frekara náms í leikskólafræðum.

Á vefsíðu Reykjanesbæjar má nálgast ársskýrslu leikskóla Reykjanesbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024