Ársreikningur Reykjanesbæjar 2014: Verulegar varúðarniðurfærslur eigna helsta orsök 4,8 milljarða kr. halla
-fyrri umræða um ársreikning 2014 til umræðu í bæjarstjórn
Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs Reykjanesbæjar er neikvæð sem nemur 4,8 milljörðum króna sem má að miklu leyti rekja til mikilla reiknaðra einskiptisaðgerða við varúðarniðurfærslu eigna. Þar á meðal er víkjandi lán sem Reykjaneshöfn skuldar Reykjanesbæ uppá 3 milljarða króna, 637 milljóna króna varúðarniðurfærsla svokallaðs Magma bréfs, sem tengist ógreiddum eftirstöðvum á sölu Reykjanesbæjar á hlut sínum í HS-Orku hf. Einnig eru gerðar 353 milljóna króna varúðarniðurfærslur á óinnheimtum kröfum vegna uppsafnaðra ógreiddra gjalda s.s. útsvars o.fl. Þetta kemur fram í ársreikningi Reykjanesbæjar 2014 sem lagður var fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag.
Í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ segir einnig:
Þá var ákveðið að færa hlutafjáreign bæjarsjóðs í öðrum félögum niður um 200,1 milljón auk þess sem uppgjör á hlut Reykjanesbæjar í nokkurra ára uppsöfnuðum halla Brunavarna Suðurnesja upp á 110 milljónir króna er gjaldfærður vegna stofnunar byggðasamlags um brunavarnir.
Á móti kemur hækkun á áður niðurfærðu stofnfé Sorpeyðingastöðvar Suðurnesja sf. upp á 129 milljónir króna en tekist hefur að snúa rekstri hennar við á undanförnum misserum með þeim góða árangri að nú er talið að um raunverulega eign sé að ræða.
Rekstur bæjarfélagsins er hins vegar jákvæður síðustu mánuði og sést svart á hvítu að Sóknin, áætlun um viðsnúning í rekstri, er að skila sér. Ráðstafanir sem gripið hefur verið til síðustu mánuði eru að bera árangur og viðræðum við lánadrottna um endurútreikning lána miðar áfram.
Hefðbundinn rekstur í járnum
Að öðru leyti er hefðbundinn rekstur A-hluta bæjarsjóðs í járnum. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði er neikvæður um 2,7 milljónir króna. Fjárhagsáætlun með viðaukum gerði hins vegar ráð fyrir 201 milljón króna rekstrarafgangi. Helsta skýring þessarar breytingar er ófyrirséð hækkun lífeyrisskuldbindinga uppá 200 milljónir króna sem og varúðarniðurfærsla vegna útsvarstekna. Rekstrartekjur A-hluta bæjarsjóðs urðu rúmir 9,7 milljarðar, eða um 100 milljónum króna hærri en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir þrátt fyrir varúðarniðurfærslu útsvarstekna, en rekstrargjöld námu rúmum 9,7 milljörðum, eða rúmum 300 milljónum króna yfir áætlun. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar um 200 milljónum króna hærri en áætlað var, sem þýðir að rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði varð rúmlega 200 milljónum króna verri en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir.
Rekstrartekjur samstæðunnar þ.e. A-hluta bæjarsjóðs og B-hluta stofnanna (HS Veitur, Reykjaneshöfn, Fasteignir Reykjanesbæjar, Fráveita Reykjanesbæjar o.fl.) námu alls 16 milljörðum króna, rekstrargjöld námu alls 13,5 milljörðum króna og rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B-huta því jákvæð um tæpa 2,6 milljarða króna fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Rekstrarniðurstaða samstæðu að teknu tilliti til fjármagnsliða, óvenjulegra liða, skatta og hlutdeild minnihluta er 1.728 milljónir króna.
Mikil óvissa um Reykjaneshöfn
Enn ríkir óvissa um rekstrarafkomu Reykjaneshafnar. Ráðist hefur verið í kostnaðarsama uppbygginu hafnaraðstöðu og lóða í Helguvík sem óvíst er hvenær muni skila sér. Fyrirhugað álver Norðuráls er enn í biðstöðu en framkvæmdir við byggingu kísilvers United Silicon eru hafnar og starfsleyfi annars kísilvers, Thorsil, er til umfjöllunar hjá Umhverfisstofnun. Í áætlunum sínum gerir Reykjaneshöfn aðeins ráð fyrir þeim verkefnum sem góðar líkur eru á að muni skapa tekjur. Miðað við núverandi tekjur Reykjaneshafnar eru litlar líkur á að höfninni takist að endurgreiða Reykjanesbæ 3 milljarða króna víkjandi lán og því er það fært niður í efnahagsreikningi A-hluta bæjarsjóðs. Ef bjartsýnustu spár og áætlanir hafnarinnar ganga eftir gæti þetta breyst. Þá mun krafan aftur verða færð inn í efnahagsreikning A-hluta Reykjanesbæjar líkt og gert er nú með stofnfé Sorpeyðingastöðvar Suðurnesja sf.
Skuldaviðmiðið lækkar
Áðurnefndar einskiptis reikningshaldslegar varúðarniðurfærslur eigna Reykjanesbæjar hafa ekki áhrif á skuldastöðu sveitarfélagsins. Skuldir lækka um 900 milljónir króna í A-hluta bæjarsjóðs vegna þessa að verið er að flytja skuldir vegna nýs hjúkrunarheimilis við Nesvelli úr A-hluta yfir í sérstaka í B-hluta stofnun. Skuldaviðmið samstæðunnar lækkar úr 248,5% í 232,7% en þarf að vera komið undir 150% fyrir lok árs 2022.
Nokkrar kennitölur úr ársreikningi 2014:
Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði er neikvæð um 2.7 milljónir króna hjá bæjarsjóði og er jákvæð um 2.591 milljónir króna hjá samstæðu. Rekstrarniðurstaða af reglulegri starfsemi hjá bæjarsjóði er neikvæð um 4.664 milljónir króna og er neikvæð um 1.130 milljónir króna hjá samstæðu. Rekstrarniðurstaða ársins 2014 hjá bæjarsjóði er neikvæð um 4.773 milljónir króna og hjá samstæðu neikvæð um 1.728 milljónir króna.
Eignir bæjarsjóðs eru bókfærðar á 25.936 milljónir króna, þar af eru veltufjármunir 1.494 milljónir króna. Skuldir bæjarsjóðs með lífeyrisskuldbindingum og leiguskuldbindingum eru 23.777 milljónir króna, þar af eru skammtímaskuldir 3.829 milljónir króna. Eignir samstæðu eru bókfærðar á 48.176 milljónir króna, þar af eru veltufjármunir 4.393 milljónir króna. Skuldir samstæðu með lífeyrisskuldbindingum og leiguskuldbindingum eru 40.792 milljónir króna, þar af eru skammtímaskuldir 3.914 milljónir króna. Bókfært eigið fé bæjarsjóðs er 2.158 milljónir króna. Bókfært eigið fé samstæðu með hlutdeild minnihluta er 7.384 milljónir króna.
Hreint veltufé frá rekstri í bæjarsjóði er 195 milljónir króna og í samstæðu 2.000 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri í bæjarsjóði er 722 milljónir króna og í samstæðu 2.176 milljónir króna.
Handbært fé í lok árs er 74 milljónir króna hjá bæjarsjóði og 2.302 milljónir króna í samstæðu.
Veltufjárhlutfall fyrir bæjarsjóð er 0,39 og fyrir samstæðu 1,12. Eiginfjárhlutfall fyrir bæjarsjóð er 8,32% og fyrir samstæðu 15,33%.
Skuldahlutfall fyrir bæjarsjóð lækkar úr 263,2% og fer í 243,8% og skuldaviðmið fyrir bæjarsjóð lækkar úr 235,1% og fer í 228,1%. Skuldahlutfall fyrir samstæðu lækkar úr 271,4% og fer í 253,6% og skuldaviðmið fyrir samstæðu lækkar úr 248,5% og fer í 232,7%.