Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árni um Suðurlindir: „Um margt skynsamlegt“
Fimmtudagur 15. nóvember 2007 kl. 10:59

Árni um Suðurlindir: „Um margt skynsamlegt“

Í kjölfar fregna um stofnun nýs orkufyrirtækis á Reykjanesskaga, Suðurlinda, þar sem Hafnarfjörður, Vogar og Grindavík hafa tekið höndum saman, vakna ýmsar spurningar um framhald orkuvinnslu Hitaveitu Suðurnesja. Flest framtíðarsvæði HS eru á umráðasvæði sveitarfélaganna þriggja sem og flutningsleiðir orkunnar.

Víkurfréttir inntu Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og stjórnarformann HS, eftir viðbrögðum við þessum fréttum.
„Ég tel að þetta geti verið um margt skynsamlegt hjá þeim,“ sagði Árni. „Það hefur komið fram að landamörk hafa verið ógreinileg sem hefur valdið töfum í undirbúningi svæða, m.a. hvað varðar rannsóknarleyfi og skoðun á verkefnum. Það er bara mjög mikilvægt, ef það er vilji þessara sveitarfélaga sem koma að þessu, að reyna skipuleggja það betur. Ég held að það geti bara verið jákvætt og ég skil alveg að það þurfi að skilgreina betur þar sem lönd koma saman.“ sagði Árni.

Guðbrandur Einarsson, oddviti minnihlutans í Reykjanesbæ, hefur deilt á meirihlutann í málefnum HS og sagði að ýmsar spurningar vakni við þessi nýju tíðindi.
„Í mínum augum er það sem er að gerast núna skilgetið afkvæmi sjálfstæðismanna. Það að farið var út í einkavæðingu á Hitaveitu Suðurnesja kallar fram þessi viðbrögð annarra sveitarfélaga og ég skil það vel að menn skuli bregðast við með þessum hætti. Ég set ýmsar spurningar við möguleika og framtíð HS.  Einnig hlýtur maður að spyrja hvert virði hennar verður þegar þetta er orðið að veruleika.“ sagði Guðbrandur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024