Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árni Sigfússon: töluverður ávinningur með þátttöku í Fasteign hf.
Miðvikudagur 19. mars 2003 kl. 16:58

Árni Sigfússon: töluverður ávinningur með þátttöku í Fasteign hf.

Á bæjarstjórnarfundi í gær var samþykkt tillaga um að fasteignir Reykjanesbæjar yrðu seldar til fasteignafélagsins Fasteign hf. og er söluverðið rúmlegar 3,3 milljarðar króna. Árni Sigfússon bæjarstjóri segir að ávinningur bæjarfélagsins sé mikill: „Við fáum tækifæri til að greiða skuldir hraðar niður. Staðfest er að við getum strax greitt skuldir niður um 1,5 milljarða og erum að vinna í frekari niðurgreiðslu skulda,“ segir Árni. Reykjanesbær er með fjórðungs eignarhlut í fasteignafélaginu og verður skipulagið þannig að haldið verður sérstaklega utan um allar fasteignir bæjarins innan félagsins.Árni segir að þjónusta við notendur verði sú sama og verið hefur: „Gagnvart notendum eignanna breytist lítið í daglegum rekstri. Þeir ræða við starfsmenn Reykjanesbæjar á sama hátt og áður. Við höfum séð svo um að verktakar af svæðinu ganga fyrir í nýframkvæmdir eða utanhússviðhald sem félagið hyggst vinna. Bærinn sem leigjandi sér áfram um viðhald og breytingar innanhúss.“

Leigugreiðslur Reykjanesbæjar í nýja kerfinu eru lægri en fjármagnskostnaður. Viðhald eignanna færist yfir á Fasteign hf. og segir Árni að þar sé nokkur ávinningur: „Félagið er þannig saman sett í upphafi að það á að geta notið sambærilegra eða betri lánskjara en bærinn og því lækkar kostnaður okkar sem leigutaka. Stór ávinningur er að við berum ekki lengur áhættu af framúrkeyrslum í byggingarkostnaði, en við þekkjum dæmi um 15-20% framúrkeyrslur vegna bygginga sveitarfélaganna. Nú ber Fasteign hf. ábyrgð á að kostnaðaráætlanir standist.“

Eignir bæjarins sem fara inn í Fasteign hf. eru metnar á um 70% virði miðað við sambærilegar eignir á höfuðborgarsvæðinu og taka leigugreiðslur mið af því: „Við höfum tryggðan forkaupsrétt á eignunum á 5 ára fresti. Ef okkur finnst þróunin ekki jákvæð eða ef annað félag býður t.d. betur getum við tekið allar eignirnar til baka. Ef við kaupum þær til baka og endurseljum, er samið svo um að við njótum líklegs ávinnings af því að fasteignaverð er að jafnast á höfuðborgarsvæðinu. Þetta félag sérhæfir sig á þessu sviði og það er nógu stórt til að við njótum hagkvæmni stærðarinnar, sem lækkar lántöku-, bygginga-, og rekstrarkostnað. Þar með lækka leigugreiðslurnar,“ segir Árni og bætir því að Fasteign hf. hafi nú þegar samþykkt að hefja framkvæmdir við að gera íþróttahúsið í Njarðvík fullbúið að utan og innan, auk þess sem samþykkt var að fara í stækkun á leikskólanum Holti í Innri-Njarðvík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024