Árni Sigfússon skipaður í stjórn hlutafélags um framtíðarþróun varnarsvæðis
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon, er eini fulltrúinn frá bæjarfélagi á Suðurnesjum sem skipaður hefur verið í stjórn hlutafélags um framtíðarþróun varnarsvæðisins. Í ályktun stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum segir að gert hafi verið ráð fyrir því að fulltrúar frá sveitarfélögunum á Suðurnesjum myndu taka sæti í hlutafélaginu og er lýst yfir vonbrigðum með að aðeins einn fulltrúi frá sveitarfélögunum sé í stjórn hlutafélagsins.
Forsætisráðuneytið leitaði eftir því að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum myndi tilnefna einn aðalmann og einn til vara í stjórn hlutafélags sem stofnað yrði í eign ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu fyrrverandi varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.
Í bókun stjórnar á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum frá 9. september kom m.a. fram að það væri grundvallaratriði að sveitarfélögin yrðu áhrifavaldar um þá framtíð sem hér yrði mótuð og því væru það vonbrigði að fulltrúi Suðurnesja í stjórn hlutafélagsins væri aðeins einn.
www.reykjanesbaer.is