Árni Sigfússon: Norðurál tilbúið að flýta framkvæmdum
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir alla þjónustu Reykjanesbæjar við íbúa vera örugga. Þá segir hann stærstu atvinnutækifærin vera á Suðurnesjum.
Í grein sem birt verður í Víkurfréttum á fimmtudag segir m.a. að í því gjörningaveðri sem nú ríkir á Íslandi er mikilvægt að íbúar Reykjanesbæjar viti að stjórn bæjarins og hin margvíslega þjónusta sem bæjarfélagið veitir, stendur styrkum fótum.
„Eiginfjárstaða bæjarins er sterk og fjárhagslegar eignir okkar einnig. Atvinnulífið er í sókn, þar sem álversuppbygging er komin á fulla ferð og Norðurál er reiðubúið að flýta framkvæmdum ef orka fæst strax til næstu áfanga“.
Þá segir Árni að tvö önnur stórverkefni eru í góðum undirbúningi. „Í síðustu viku gaf Skipulagsstofnun jákvætt álit sitt á umhverfismati vegna Kísilmálmverksmiðju í Helguvík, sem við höfum unnið að án mikilla yfirlýsinga í tvö ár. Lóðin er tilbúin. Hitt verkefnið er Gagnaverið á Vallarheiði sem gerir ráð fyrir að hefja starfsemi á þriðja ársfjórðungi næsta árs og undirbúningur vegna þess er að komast á fulla ferð. Orka á að vera trygg í gagnaverið en orku þarf að tryggja betur í 1. áfanga Kísilmálmverksmiðjunnar.
Meðan á framkvæmdum þessum stendur við þessi þrjú verkefni næstu ár skapast yfir 1100 störf á byggingartíma og í framhaldinu skapast um 500 störf í verunum sjálfum með um 1200 störfum til viðbótar vegna hliðaráhrifa“.
Árni segir að hverrgi verði gefið eftir í að veita góða og örugga þjónustu leikskóla, grunnskóla og félagslega þjónustu. Stuðningur við íþrótta- og menningarfélög heldur áfram svo og öll önnur þjónusta sem bærinn veitir.
Þá segir: „Með hliðsjón af þeim atriðum sem ég hef nefnt er mikilvægt að hafa bjargfast að ríkisstjórnin og alþingi lofa amk. þrennu mikilvægu fyrir alla landsmenn:
1. Peningalegur sparnaður landsmanna í öllum íslenskum lánastofnunum, bönkum og sparisjóðum er tryggur.
2. Íbúðalánasjóður tekur yfir lán þeirra sem eru í vanda og lofað hefur verið lánbreytingum og stuðningi til þeirra sem standa ekki undir greiðslum.
3. Fyrirtækjum verða tryggð útlán.
Við tókum samhent á aðsteðjandi vanda þegar Varnarliðið fór og sköpuðum úr þeirri stöðu mörg ný tækifæri sem eru að þroskast og skila okkur árangri. Keilir, skólasamfélagið okkar og Gagnaverið á Vallarheiði eru skýr dæmi um það“.
Nánar í Víkurfréttum á fimmtudaginn.