Árni Sigfússon ekki á leið á þing eða í framboð
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, hefur ákveðið að sækjast ekki eftir þingsæti, varaformennsku eða formennsku í Sjálfstæðisflokknum í komandi kjöri. Þetta tilkynnti hann félagsmönnum sínum í Sjálfstæðisflokknum á fundi í kvöld.
„Þótt að slík verk séu mikilvæg og áhugaverð tel ég meira áríðandi að standa með mínu fólki hér á svæðinu að uppbyggingu atvinnutækifæra. Það ríkir óvissa um margt í þeim efnum nú og þarf að kappkosta að við vinnum okkar heimavinnu til að ná hjólum atvinnulífsins á fullan snúning,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir eftir fundinn.
„Í góðærinu höfum við þurft að glíma við erfiðleika. Við þurftum að takast á við stærstu hópuppsagnir í sögu íslensku þjóðarinnar árið 2006, með skyndilegu brotthvarfi ameríska hersins. Við stóðum það af okkur. Við stöndum nú frammi fyrir efnahagshruni sem leiðir til alvarlegs atvinnuleysis, þar sem fjöldi fyrirtækja og heimila berst í bökkum. Tíminn til að fara frá þessu verkefni mínu hér er klárlega ekki á næstu mánuðum. Þannig fara önnur verkefni í pólitík, sem kalla á mig nú, ekki saman við mest áríðandi verkefnin hér. Þess vegna þakka ég af alhug þær hvatningar sem ég hef fengið en læt þessi framboðstækifæri fram hjá mér fara,“ segir Árni.
Hann segir verkefni sitt vera að leita varanlegra atvinnulausna fyrir íbúa svæðisins.
„Við getum það vegna þess að við höfum þegar lagt grunninn. Stærstu verkefnunum þarf nú að fylgja fast eftir á næstu mánuðum. Þau eru álver og mögulegt kísilver í Helguvík, vísinda- og skólasamfélagið hjá Keili og ný verkefni á varnarliðssvæðinu. Okkar bíður spennandi uppbygging auðlindagarðs með nýrri kynslóð atvinnutækifæra.
Ég er því vongóður um að okkur takist að ná góðum árangri með uppbyggingu atvinnustarfsemi á Reykjanesi á komandi misserum,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í samtali við Víkurfréttir.