Árni Ragnar Árnason fluttur til Keflavíkur
Í þeim hörðu umræðum sem orðið hafa um tillögur uppstillinganefndar Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur töluvert verið rætt um það hvort Árni Ragnar sé Suðurnesjamaður af því hann búi ekki á Suðurnesjum. Árni Ragnar sagði í viðtali við Víkurfréttir að hann væri fluttur til Keflavíkur: „Það er afskaplega gaman að heyra svona ummæli hafandi búið á Suðurnesjum í nærri því 40 ár. Ég bjó þar í 39 ár og konan mín í 40 ár. Við ólum þar upp öll börnin okkar og þau voru þar í skóla fram að háskólastigi. Ég starfa þar ennþá í félögum og í fyrirtækjum og gerði það náttúrulega meðan ég bjó þar. Ég á þar fjölskyldu og þar er móðir mín ennþá búsett, þar búa systur mínar og þeirra börn, þannig að mín fjölskylda er þar. Þar eru mínir vinir og kunningjar og mér finnst það undarlegt þegar menn halda að eftir 40 ár slitni rætur úr hjarta manns. Og hvers vegna er allt í einu einhver annar orðinn Suðurnesjamaður sem að bjó ekki þar á þeim tíma. Ég vil bara taka það fram að ég er nú fluttur til Keflavíkur og bý á Vesturgötu 14,“ sagði Árni í viðtali við Víkurfréttir.