Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árni: „Rafdreifikerfið í Hafnarfirði er eign HS“
Mánudagur 17. desember 2007 kl. 16:32

Árni: „Rafdreifikerfið í Hafnarfirði er eign HS“

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir fyrir stundu að tillögur Hafnfirðinga um sölu á hlut sínum í HS kæmu honum lítt á óvart.

„Þetta er í samræmi við viljayfirlýsingu stærstu hluthafa frá í sumar þar sem við féllum frá forkaupsrétti og gerðum ekki athugasemd við þessi viðskipti.“

Árni segir rafveitukerfi HS í Hafnarfirði þó verða áfram í eigu HS nema um annað semjist. „Það dreifikerfi er í eigu hitaveitunnar og þeir geta ekki tekið út eigur fyrirtækisins þegar þeir fara þaðan. Ef þeir hafa hug á einhverju fleiru en kom fram í viljayfirlýsingunni frá því í sumar kallar það bara á nánari skoðun.“

Árni bætir því hins vegar við að fulltrúar Reykjanesbæjar hafi þegar sagst ekki ætla að athafast frekar í þessum málum fyrr en löggjafinn hafi sett fram skýra stefnu í málefnum veitufyrirtækja og fyrr verði ekki samið um eignartilfærslur.

Leiðrétt: Í upphaflegri frétt var sagt að vatns- og fráveitukerfi í Hafnarfirði væri í eigu HS. Það var misskilningur þar sem þær veitur eru í eigu Hafnarfjarðarbæjar og leiðréttist hér með.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024