Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 26. júlí 2002 kl. 11:33

Árni ræðir við Keflavíkurverktaka

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur þegar rætt fyrirhugaðar fjöldauppsagnir hjá Keflavíkurverktökum við forsvarsmenn fyrirtækisins. Í samtali við Morgunblaðið segir Árni að honum sýnist að helmingur af þeim sem uppsagnir snúa að varða fyrirbyggjandi aðgerðir um það hver fær samning. Talaði hann um að það þyrfti alls ekki að þýða að allur sá hópur væri atvinnulaus heldur gæti hann mögulega verið að flytjast á milli fyrirtækja.

Mál þetta hefur þegar verið rætt á bæjarráðsfundi Reykjanesbæjar og þar er litið á þetta alvarlegum augum enda eru margir starfsmenn sem um ræðir af Suðurnesjunum. Árni benti á að margt annað væri að gerast í atvinnulífi á Reykjanesi og stefnan sé að styrkja fleiri stoðir í atvinnumálum.

„Ég tel að það séu mjög mörg jákvæð merki framundan. Við höfum verið að tryggja okkur með afgerandi hætti sterkari stöðu í ferðaþjónustu með komu víkingaskipsins. Við horfum björtum augum til stórrar stálpípuverksmiðju sem á að byggja í Helguvík. Ég fylgist einnnig hér með litlum fyrirtækjum sem eru að hefja starfsemi sína hér í Reykjanesbæ," segir Árni í viðtalinu sem birtist á vef Morgunblaðsins.
„Það er margt jákvætt að gerast en við lokum ekki augunum fyrir því að það eru alltaf sveiflur," sagði Árni og bendir á að hörð samkeppni sé núna í verktakastarfsemi þar sem frekar sé lægð í stórum verkefnum.
„Þar óhjákvæmilega gerist það að einn fær og annar ekki. Þá gætu verkefni verið að flytjast milli fyrirtækja," sagði hann og bendir á að starfsmenn færist gjarnan milli verktakafyrirtækja eftir því hvar þörfin er mest.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024