Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árni hlaðinn orku og ætlar í framboð
Fimmtudagur 2. janúar 2014 kl. 13:35

Árni hlaðinn orku og ætlar í framboð

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, er kominn undan feldi. Hann ætlar í framboð vegna komandi bæjarstjórnarkosninga í Reykjanesbæ. „Niðurstaðan er að ég er reiðubúinn að fylgja verkum eftir næsta kjörtímabil, fái ég stuðning til. Ég er hlaðinn orku til góðra verka,“ segir Árni í pistli sem hann skrifar til bæjarbúa og fésbókarvina.

Pistillinn er hér að neðan:

Á tímamótum

Kæru bæjarbúar og fésbókarvinir,
Við Bryndís óskum ykkur gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir samstarfið á liðnum árum.

Áramót eru góður tími til að líta yfir farinn veg, meta árangur og horfa fram á við. Það á við um mig eins og aðra. Ekki síst þar sem á miðju ári 2014 eru bæjarstjórnarkosningar og menn undirbúa nú val á framboðslista.

Mér fannst mikilvægt að spyrja sjálfan mig hvort ég væri enn reiðubúinn og umhverfið hvort það teldi tíma kominn á breytingar. Það er slæmt þegar stjórnmálamaður þekkir ekki sinn vitjunartíma. Eg vildi fara yfir leiðarljós mín sem einn af leiðtogunum í okkar samfélagi. Þau byggja á að hafa þekkingu á viðfangsefninu, hafa skýra sýn á framtíðina og kunna að vísa leiðina þangað. Á leiðinni þarf okkur að þykja vænt um náungann og sýna sérhverjum manni virðingu og heilindi. Leiðarljósin byggja líka á að hafa þor til að framkvæma á óvissutímum og ekki síst hafa þrautseigju, að gefast ekki upp í andstreyminu.

Mér þykir sannarlega vænt um fólkið sem hér býr, drífandi, gefandi og greint fólk. Enn vænna þykir mér þó um að geta staðið með þeim sem hafa lent undir í lífinu þegar þroski eða utanaðkomandi aðstæður hafa verið þeim óhliðholl.

Við höfum þorað að vinna fast eftir framtíðarsýn okkar og framkvæma á óvissutímum þegar aðrir hafa hikað. Vissulega hefur á köflum verið erfitt að sjá til sólar. Vissulega hef ég átt mínar stundir þar sem ég efast um að hafa gert rétt. Þetta á sérstaklega við þegar árangur lætur á sér standa í stórum atvinnumálum, fjármagnskostnaður hleðst upp vegna atvinnuuppbyggingar sem tefst að endurgjalda með góðum störfum. Á sama hátt hef ég fyllst stolti yfir árangri framtíðarsýnar og skýrra markmiða sem við sjáum að hefur náðst í menntun, í tónlist, í forvörnum, þjónustu við aldraða, fjölbreyttri menningu, heilsusamlegra lífi, í fallegra umhverfi og nýjum atvinnusprotum.

Ég hef talið farsælast að við leiðum hjá okkur þá sem beita níði í okkar garð eða annarra. Þar hafa hæst þeir sem minnst þekkja okkur. En við eigum flest fjölskyldur og okkur þykir miður þegar okkar nánustu taka nærri sér illmælgi í okkar garð.
Þetta þurfti ég að gera upp við mig á þessum tímamótum, heyra í ykkur og fjölskyldu minni. Við getum sannarlega glaðst yfir árangri í þeim málum sem nefnd eru hér að ofan, en verkefninu er ekki lokið og það verða alltaf brimskaflar að brjótast í gegnum til að komast á lygnan stað. Þannig er lífið. Vil ég áfram berjast til að sjá drauminn rætast? Vil ég áfram stíga í gegnum brimskafla þungra ákvarðana til að ná settu marki?

Niðurstaðan er að ég er reiðubúinn að fylgja verkum eftir næsta kjörtímabil, fái ég stuðning til. Ég er hlaðinn orku til góðra verka. Við höfum undirbúið jarðveginn fyrir svo mörg spennandi tækifæri og ég vil fylgja þeim eftir á lokasprettinum. Mér hefur þótt mjög vænt um hvatninguna sem þessar vangaveltur mínar kölluðu á og finn mikinn stuðning utan við alla flokkspólitík.

Því skulum við saman halda áfram í baráttunni við að byggja betra samfélag. Við þurfum að halda áfram að hlusta hvert á annað, án fordóma, óháð pólitískum flokkum. Kærleikur, virðing og mannréttindi þurfa að ráða för.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024