Árni Gísli í starf sviðsstjóra stjórnsýslusviðs Suðurnesjabæjar
Gengið hefur verið frá ráðningu í starf sviðsstjóra stjórnsýslusviðs hjá sveitarfélaginu. Árni Gísli Árnason hefur verið ráðinn í starfið og mun hefja störf 1. september nk.
Árni er með B.Sc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst auk þess að hafa lokið M.Sc. gráðu í viðskipta- og hagfræði frá Árósarháskóla í Danmörku.
Frá árinu 2021 hefur Árni sinnt starfi forstöðumanns vöktunar og upplýsingaþjónustu hjá Vegagerðinni sem er ný eining er hefur það hlutverk að sinna vöktun og upplýsingmiðlun vegna samgangna á vegakerfinu allan sólarhringinn allt árið. Einnig hefur einingin leitt þróun á stafrænni upplýsingagjöf umferðaupplýsinga á upplýsingavef Vegagerðarinnar. Árin 2014 - 2021 starfaði Árni sem deildarstjóri og forstöðumaður flugverndar, rekstrar- og þjónustusviðs Isavia á Keflavíkurflugvelli.
Í störfum sínum hefur Árni öðlast yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á stjórnun, fjármálum, rekstri, áætlanagerð, stefnumótun og innkaupum auk góðrar þekkingar og reynslu af opinberri stjórnsýslu og þróun rafrænnar þjónustu.