Arnarhreiður á Keflavíkurflugvelli
Bifhjólaklúbbur Suðurnesja, Ernir, hefur opnað myndarlega aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Hefur klúbburinn hreiðrað um sig í gömlu Aðalstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Húsnæðið er í eigu N1, sem hefur veitt bifhjólamönnum í Örnum afnot af aðstöðunni til a.m.k. næstu þriggja ára.
Síðustu daga og vikur hefur rækilega verið tekið til hendinni í húsinu, sem síðast þjónaði sem pylsusjoppa á Keflavíkurflugvelli. Nú er í húsinu glæsileg félagsaðstaða þar sem Ernir geta komið saman og rætt sín mál. Fjölmargir hafa stutt við klúbbinn í þeim framkvæmdum sem þurfti til að gera húsið að því sem það er í dag.
Um 300 félagar eru í Bifhjólaklúbbi Suðurnesja sem kallar sig Ernir, er tugir hjóla voru utan við nýju aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli í dag. Varð mönnum á orði að aðstaðan væri strax orðin of lítil. Félagsmenn eiga þó ekki von á því að aðsóknin verði alla daga eins og í dag. Kann að vera að myndarleg rjómaterta sem boðið var uppá í tilefni dagsins, hafi dregið einhverja að. Nýja félagsaðstaðan hefur hlotið nafnið Arnarhreiðrið.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í tilefni dagsins. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson