Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Arnar Már Elíasson skipaður forstjóri Byggðastofnunar
Mánudagur 19. september 2022 kl. 21:55

Arnar Már Elíasson skipaður forstjóri Byggðastofnunar

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur skipað Arnar Má Elíasson forstjóra Byggðastofnunar til næstu fimm ára.

Arnar Már var valinn úr hópi margra hæfra umsækjenda að fengnum tillögum frá ráðgefandi hæfnisnefnd og stjórn Byggðastofnunar sbr. 5. gr. laga nr. 106/1999 um Byggðastofnun. Skipan í embættið tók gildi 16. september.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Arnar Már lauk B.A.-prófi í hagfræði frá Winthrop University í USA og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Arnar Már hefur starfað við fjármál og lánastarfsemi frá árinu 2004 hjá SPRON, Íslandsbanka og síðar Byggðastofnun.

Frá 1. febrúar á þessu ári hefur Arnar Már verið starfandi forstjóri Byggðastofnunar en var áður forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar og staðgengill forstjóra frá árinu 2016. Arnar Már leiddi m.a. vinnu við mikilvægt samkomulag Byggðastofnunar við European Investment Fund (EIF) um innleiðingu á COSME ábyrgðakerfi. Við þá vinnu fór fram heildarendurskoðun á lánaflokkum stofnunarinnar og veigamiklar breytingar gerðar á eldri flokkum og nýir stofnaðir. Með breytingunum jókst eftirspurn í lánveitingar Byggðastofnunar og efldi þar með aðgengi landsbyggðanna að lánsfé.

Byggðastofnun er staðsett á Sauðárkróki. Forstjóri Byggðastofnunar ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar, þjónustu og árangri. Hlutverk Byggðastofnunar er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu.