Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árlegt skötuát í dag
Miðvikudagur 23. desember 2009 kl. 11:08

Árlegt skötuát í dag


Þessa stundina eru margir að stinga Þorláksmessuskötunni í pottinn. Svo rammt kveður að lyktinni að margir elda hana ekki heima hjá sér af tillitssemi við annað heimilsfólk eða nágranna og borða hana heldur á einhverjum þeirra fjölmörgu veitingastaða sem bjóða upp á skötu í dag.
Mörgum finnst skötulyktin á Þorláksmessu marka upphaf jólahaldsins. Aðrir eru lítt gefnir fyrir fnykinn af henni og láta hana ekki inn fyrir sínar varir. Þetta hefur stundum valdið mikilli togstreitu þessara hópa og jafnvel orðið tilefni heiftugra nágrannadeilna.

Sá siður að borða skötu á Þorláksmessu er ævaforn á Vestfjörðum en ekki nema nokkurra ártatuga gamall á suðvesturhorninu. Nú í seinni tíð er orðið æ algengara að menn taki forskot á sæluna með skötuveislum á vegum félagasamtaka á aðventunni. Eru þær þá oft haldnar í fjáröflunarskyni fyrir góð málefni.

Upphaf skötuáts á Þorláksmessu má rekja til þess að í kaþólskum sið var fastað fyrir jólin. Átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu. Það átti að vera sem mestur munur á föstumat og jólakræsingum, auk þess sem ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Reglan var sú að borða lélegt fiskmeti á þessum degi, en misjafnt var hvað hentaði best á hverjum stað.

Til eru ýmis húsráð til að draga úr lyktinni eins og að væta viskustykki upp úr ediki og setja yfir pottinn á meðan suða fer fram. Ilmkerti gera sitt gagn og sumir sjóða hangikjötið á eftir skötunni.

Til fróðleiks má lesa nánar um þennan sið á Vísindavefnum hér:




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024