Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Arion banki og Thorsil falli frá áformum um kísilver í Helguvík
Þriðjudagur 22. janúar 2019 kl. 18:57

Arion banki og Thorsil falli frá áformum um kísilver í Helguvík

Arion banki og Thorsil eru í yfirlýsingu frá meirihluta bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ hvött til að falla frá öllum áformum um uppbyggingu og rekstur kísilmálmverksmiðja í Helguvík. Bæjarfulltrúarnir hvetja þessa aðila til að taka frekar þátt í  annarri atvinnuuppbyggingu í sátt við fólkið í sveitarfélaginu og umhverfið. Yfirlýsingin var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudagskvöld.
 
Í yfirlýsingu frá meirihluta bæjarfulltrúum í Reykjanesbæ segir: „Kísilveri United Silicon, sem hóf starfsemi sína þann 13. nóvember 2016 var lokað 1. september 2017 og tekið til gjaldþrotaskipta 22. janúar 2018.  Þann tíma sem verksmiðjan var í rekstri olli hún íbúum sveitarfélagsins verulegum óþægindum og jafnvel veikindum, vegna mengunar sem af henni stafaði. Þá urðu margir fyrir verulegum fjárhagslegum skakkaföllum í kjölfar gjaldþrots verksmiðjunnar, s.s. starfsmenn, verktakar, hluthafar og sveitarfélagið Reykjanesbær. 
 
Nú hafa verið kynntar áætlanir um að hefja rekstur verksmiðjunnar að nýju og ætlar nýr eigandi, Arion Banki, að eyða verulegum fjármunum í lagfæringar á verksmiðjunni. Þá áformar hlutafélagið Thorsil einnig að hefja rekstur samskonar verksmiðju á sama stað í Helguvík, um 2 km frá þéttri byggð, steinsnar frá leikskóla og grunnskóla í bænum.
 
Ljóst er að íbúar Reykjanesbæjar hafa af þessu verulegar áhyggjur í ljósi fyrri reynslu af slíkum rekstri. United Silicon hafði einungis komið einum ofni í gang þann tíma sem fyrirtækið starfaði en áætlanir gera ráð fyrir að ofnarnir geti alls orðið sjö með tilheyrandi mengun. 
 
Undirritaðir bæjarfulltrúar taka fyllilega undir áhyggjur annarra íbúa og telja að nú sé orðið ljóst að starfsemi af þessu tagi henti alls ekki í nálægð við þétta íbúabyggð.  Sökum þess viljum við skora á hlutaðeigandi aðila, bæði Arion banka og Thorsil að falla frá öllum áformum um uppbyggingu og rekstur kísilmálmverksmiðja í Helguvík og hvetja þá til að taka frekar þátt í  annarri atvinnuuppbyggingu í sátt við fólkið í sveitarfélaginu og umhverfið.“ Undir yfirlýsinguna rita allir bæjarfulltrúar meirihlutans, auk bæjarfulltrúa Miðflokksins.
 

Bókun D-listans vegna kísilvera í Helguvík

 
Saga kísilvers United Silicon frá því það hóf starfsemi sína 2016 og þá tíu mánuði sem það starfaði er okkur öllum kunn og ljóst er að þau mistök sem gerð voru í undirbúningi og rekstri verskmiðjunnar mega ekki endurtaka sig. Íbúar í Reykjanesbæ þekkja mikilvægi þess að hafa fjölbreytt atvinnulíf. Rúmlega þúsund manns misstu atvinnuna við brotthvarf Varnarliðsins fyrir tólf árum. Í bankahruni tveimur árum síðar misstu enn fleiri atvinnuna og nú síðast fyrir tveimur mánuðum var á þriðja hundrað manns sagt upp störfum á Keflavíkurflugvelli vegna óvissu í flugrekstri. Bæjarfulltrúar D-listans geta því ekki tekið undir áskorun meirihluta bæjarstjórnar um að Stakksberg og Thorsil falli frá áformum sínum um uppbyggingu kísilmálmverksmiðja í Helguvík.
 
D-listinn leggur, eftir sem áður, áherslu á að það verði enginn afsláttur gefinn af umhverfiskröfum og eftirliti með uppbyggingu og atvinnustarfsemi í Helguvík. Bæjarfulltrúar D-listans skora á þessi sömu fyrirtæki að eiga ríkara samráð við íbúa um framvindu mála og tryggja að unnið verði að uppbyggingu í Helguvík sem er í sátt við íbúa og umhverfi Reykjanesbæjar. 

Bæjarfulltrúar D-listans:
Margrét Sanders
Baldur Guðmundsson
Anna Sigríður Jóhannesdóttir
 

Bókun Frjáls afls

 
Varðandi starfsleyfi kísilvers Stakksbergs í Helguvík vill Frjálst afl að krafist verði notkunar á bestu fáanlegu mengunarvörnum sem til eru í dag. Íbúar Reykjanesbæjar fundu fyrir mengun og munu finna áfram ef ekki  verður vandað til verka þar sem kísilver Stakksbergs er mjög nálægt byggð. Búnaðurinn þarf að fyrirbyggja bæði lyktarmengun og aðra mengun sem getur skaðað íbúana. 
 
Ljóst er að kolefnisspor verksmiðjunnar er verulegt og því eðlilegt að til komi mótvægisaðgerðir. Þær gætu t.d. verið fólgin í plöntun trjágróðurs í miklu magni á þeim svæðum bæjarins sem hafa verið skipulögð sem skógarsvæði. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar þarf að gera bæði Umhverfis- og Skipulagsstofnun grein fyrir þessum kröfum sem og þeirra sem koma að rekstri kísilversins.

f.h. Frjáls afls,
Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024