Arion banki efstur í samkeppni um fjármálaþjónustu í flugstöðinni
Niðurstaða liggur fyrir í samkeppni um rekstur fjármálaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Valnefnd fór yfir gögn sem send voru inn og Arion banki hlaut hæstu einkunn í samkeppninni. Næsta stig valferlisins eru samningaviðræður á milli Isavia og Arion banka.
Alls bárust fimm umsóknir í samkeppnina sem auglýst var á Evrópska efnahagssvæðinu og fékk Arion banki hæstu einkunn. Starfsemin felst aðallega í gjaldeyrisþjónustu, rekstri hraðbanka og endurgreiðslu á virðisaukaskatti.
Ef samningaviðuræður ganga vel mun Arion banki geta hafið starfsemi eftir um hálft ár. Ef aðilar ná ekki saman verður rætt við það fyrirtæki sem fékk næsthæstu einkunn.
Fimm tilboð bárust, þrjú frá íslenskum fjármálafyrirtækjum, eitt sameiginlegt frá íslensku og erlendu fyrirtæki og eitt frá erlendu fyrirtæki.
Þátttakendur í samkeppninni voru í stafrófsröð:
Arion banki
Global Exchange Foreign Exchange Services
Íslandsbanki
Landsbankinn
Unicâmbio og iKort