Áríðandi að halda fæðingardeildinni opinni
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í kjördæminu, heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í dag og fundaði um málefni hennar með stjórnendum og ræddi við starfsfólk. „Miklu skiptir að rétta fjárframlögin samanborið t.d. við Sjúkrahúsið á Akranesi en nokkurt jafnræði er í þeim á milli Selfoss og Suðurnesja en þær eru talsvert frá Skaganum í framlögum. Það þarf að leiðrétta og færa til jafnræðis.
Það væri afleitt ef að það gengi fram að skurðstofum yrði lokað í sumar og fæðingardeildin raskaðist. Því þurfum við að afstýra. Ég mun ræða málið við heilbrigðisráðherra í vikunni en hann er mjög skilningsríkur í garð stofnunarinnar. Þetta er öryggismál og grunnþjónusta. Hana þarf að verja.
Þá er áríðandi að opna hina skurðstofuna og útvega verkefni til hennar. Því fylgja aukin störf og betri og hagkvæmari nýting á þessari sterku og einkar vel mönnuðu stofnun. Við þurfum á næstunni að verja af hörku stöðu HSH og efla hana en ekki draga úr starfsemi hennar. Um það er góð samstaða í þingmannaliðinu,“ segir Björgvin.
Mynd: Anna Sverrisdóttir, Þórunn Benediktsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson við fæðingalaugina á Heilbrigisstofnun Suðurnesja í dag. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson