Árið 2022 stærsta framkvæmdaár í sögu Keflavíkurflugvallar
Gert ráð fyrir að fjöldi farþega á þessu ári verði um 7,8 milljónir samanborið við 7,2 milljónir árið 2019
Rekstrarafkoma samstæðu Isavia fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á árinu 2022 var jákvæð um 5,2 milljarða króna samanborið við neikvæða rekstrarafkomu upp á 810 milljónir króna árið 2021. Tekjur jukust um 75% eða 15,7 milljarða króna milli áranna 2022 og 2021 og námu tekjurnar um 95% af tekjum ársins 2019. Farþegar um Keflavíkurflugvöll voru ríflega 6,1 milljón í fyrra samanborið við rúmlega 2,1 milljón árið 2021 og rúmar 7,2 milljónir árið 2019 sem var síðasta heila rekstrarárið fyrir heimsfaraldur.
Ef horft er til heildarafkomu ársins var hún neikvæð um 617 milljónir króna samanborið við jákvæða heildarafkomu upp á 321 milljónir króna árið 2021. Neikvæð gengisáhrif á langtímalán námu um 868 milljónum króna á árinu 2022 samanborið við jákvæð gengisáhrif upp á tæpa 2 milljarða króna árið á undan. Þá voru til staðar einskiptis vaxtatekjur upp á 2,8 milljarða króna árið 2021 vegna afgreiðslu virðisaukaskatts fyrri ára.
„Árið 2022 markaði þann viðsnúning sem beðið var eftir að loknu tveggja ára óvissutímabili heimsfaraldurs,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Ísland er sem fyrr einstakur áfangastaður og tengistöðin áfram lykillinn að flugtengingum sem styðja við lífsgæði og velsæld á Íslandi.“
Sveinbjörn bendir á að endurheimtin á Keflavíkurflugvelli hafi gengið afskaplega vel. Nú í vetur hafi verið 12% meira sætaframboð til og frá Keflavíkurflugvelli en síðasta vetur fyrir heimsfaraldurinn. Á flugvöllunum í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi og Helsinki, sem við berum okkur gjarnan saman við, hafi verið 8-25% minna sætaframboð.“
„Á þessu ári sem er fyrsta heila árið eftir að ferðatakmörkunum var aflétt, gerir farþegaspá móðurfélags Isavia, sem fer með rekstur Keflavíkurflugvallar, ráð fyrir því að fjöldi farþega verði meiri en hann var árið 2019. Á sama tíma gerir spá frá samtökum alþjóðaflugvalla í Evrópu (ACI Europe) ráð fyrir að fjöldi farþega sem fer um evrópska flugvelli á þessu ári verði einungis um 91% af þeim fjölda sem fór um flugvellina árið 2019. Á sama tíma erum við að gera ráð fyrir að fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll á þessu ári verði um 7,8 milljónir samanborið við 7,2 milljónir árið 2019 sem er fjölgun upp á um 8% . Þá reikna samtökin með því að flugvellir í Evrópu muni ekki ná sama farþegafjölda og árið 2019 fyrr en árið 2025,“ segir Sveinbjörn.
Sveinbjörn segir að starfsfólk Isavia og annarra fyrirtækja í flugvallarsamfélaginu á Keflavíkurflugvelli hafi sýnt á liðnu ári, sem fyrr, hvað í því býr þegar hjólin fóru að snúast að nýju eftir ferðatakmarkanir. Árið 2022 hafi til viðbótar verið stærsta framkvæmdaár í sögu Keflavíkurflugvallar og árið í ár verði enn stærra. Farþegar og flugfélög muni ekki fara varhluta af framkvæmdunum sem fari ofan í daglegt flæði farþega og flugvéla. Allt sé það þó gert þannig að flugvöllurinn geti enn betur þjónustað viðskiptavini til framtíðar.
Aðalfundur Isavia verður haldinn miðvikudaginn 22. mars og þá verður ársskýrsla félagsins fyrir árið 2022 gefin út.
Lykiltölur úr ársuppgjöri Isavia 2022
- Tekjur: 36.505 milljónir króna
- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA): 5.165 m.kr.
- Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) : 1.233 milljónir króna
- Heildarafkoma (tap) eftir skatta: - 617 milljón króna
- Handbært fé: 9.495 milljónir króna
- Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum: 15.088 milljónir króna
- Eigið fé í lok tímabils: 41.962 milljónir króna
- Eiginfjárhlutfall: 44,5%