Arfur frá Njarðvíkurbæ kemur í bakið á Reykjanesbæ
- Keflavíkingar vilja sitja við sama borð og Njarðvíkingar
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur krafist þess að henni verði bætt upp það áralanga ójafnræði sem hún telur að hafi ríkt í húsnæðismálum á milli félaganna í Reykjanesbæ. Keflvíkingar benda á að Ungmennafélag Njarðvíkur hafi haft afnot af tvíbýlishúsi við Þórustíg 3 í Njarðvík á þriðja áratug, en það er í eigu Reykjanesbæjar.
Njarðvíkurbær neyddist á sínum tíma til að kaupa fyrst Þórustíg 1 í Njarðvík vegna stækkunar Njarðvíkurskóla og síðar Þórustíg 3 af sömu ástæðu. Eigendur húsanna kvörtuðu yfir því að skólinn væri svo nálægt húsunum að ekki sæist til sólar nánast allan daginn.
Bæjarstjórn Njarðvíkur ákvað árið 1993 að afhenda UMFN efri hæð hússins að Þórustíg 3 og skátafélaginu Víkverja neðri hæðina og bílskúrinn. Skátafélagið Víkverjar og Heiðabúar hafa síðan þá sameinast undir merkjum Heiðabúa og létu neðri hæðina nýlega eftir til UMFN en halda enn bílskúrnum fyrir ýmis konar búnað.
Körfuknattleiksdeild UMFN var með aðstöðu á efri hæðinni í nokkur ár fyrir skrifstofur fyrir framkvæmdastjóra deildarinnar. Þegar nýja félagsaðstaðan í íþróttamiðstöð Njarðvíkur var útbúin var skrifstofunum á Þórustíg 3 breytt í herbergi fyrir erlenda leikmenn, karla og kvenna.
Körfuknattleiksdeild UMFN hafi þannig nýtt húsið í starfsemi sinni og ekki þurft að leigja íbúðir úti í bæ sem kollegar þeirra hjá Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hafi þurft að gera. Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri íþrótta- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar, segir í samtali við Víkurfréttir að húseignin sé í eigu Fasteignar en Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hafi endurnýjað nánast allt innandyra.
Stefán segir að aðrar deildir innan UMFN, eins og júdódeildin, hafi óskað eftir gistiaðstöðu fyrir þjálfara og svo eru mjög margar deildir innan Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, sem eru með annað hvort leikmenn eða þjálfara sem vantar gistiaðstöðu.
„Þetta er mjög erfitt mál að leysa fyrir íþrótta- og tómstundaráð og engar skyndilausnir í sjónmáli. Ráðið er sammála um að allar íþróttagreinar eigi að sitja við sama borð, en sú spurning hefur auðvitað komið upp hvort bærinn eigi að sjá um gistingarmál fyrir erlenda leikmenn og þjálfara,“ segir Stefán.
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar mun skoða málið við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs. Nokkur umræða var um málið á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sl. þriðjudag. Þar voru menn sammála um að málið væri það gamalt eða frá síðustu bæjarstjórn Njarðvíkur, að erfitt væri að taka sérstaklega á því en sögðu einnig að alla tíð í tuttugu ára tíð núverandi bæjarstjórnar hafi alltaf verið lögð áhersla á að gæta jafnræðis í afgreiðslu mála til hinna ýmsu félaga.