Áratuga misræmi í framlögum ríkisins verði leiðrétt
Bæjarráð Garðs tekur heilshugar undir með stjórn Brunavarna Suðurnesja og lýsir áhyggjum sínum yfir því að enn sé dregið úr kostnaðarþátttöku heilbrigðisráðuneytis vegna heilbrigðismála á Suðurnesjum.
Raunkostnaður BS vegna sjúkraflutninga er 137,8 milljónir króna fyrir síðustu 12 mánuðina, framlag ríkisins til sjúkraflutninga er 70 milljónir og á að lækka á næsta ári samkvæmt tillögu ráðuneytisins um 10 milljónir.
„Það er því augljóst að sveitarfélögin á Suðurnesjum geta ekki lengur brúað það kostnaðarbil sem sífellt stækkar með lægri framlögum ríkisins. Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs beinir því til heilbrigðisráðherra að áratuga misræmi í framlögum til heilbrigðisþjónustu á svæðinu verði leiðrétt og sjúkraflutningar á Suðurnesjum tryggðir með eðlilegu framlagi heilbrigðisráðuneytis og samningi við BS,“ segir bókun bæjarráðs frá fundi þess í gær.
Þá vill bæjarráð vekja athygli á því að fjárveitingar til HSS eru 84.604.- kr. á íbúa á árinu 2009 sem sé lægsta kostnaðarhlutfall á landinu. Næst komi Heilbrigðisstofnunin á Selfossi með 105.979.- kr. á íbúa og þar næst Akranes með 145.831.- kr. á íbúa.