Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árásarmanninum í úrabúðinni hleypt út - gekk berserksgang á Selfossi sama dag
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 5. mars 2020 kl. 20:19

Árásarmanninum í úrabúðinni hleypt út - gekk berserksgang á Selfossi sama dag

Landsréttur ógilti dóm Héraðsdóms Reykjaness um gæsluvarðhald.

Maðurinn sem framdi vopnað rán í Úra- og skartgripaverslun Georgs V. Hannah var látinn laus úr haldi í gær, miðvikudag, eftir að hafa verið dæmdur í gæsluvarðhald í annað sinn. Hann hélt uppteknum hætti þegar hann losnaði úr fangelsinu á Litla-Hrauni í gær og gekk berserksgang í tveimur verslunum á Selfossi.

Eftir að Landsréttur hafði fellt gæsluvarðhald úr gildi í fyrra skiptið barst lögreglu ábending tveimur dögum eftir að hann var látinn laus um að maðurinn hafi orðið sér úti um aðra öxi ásamt öðru barefli. Grunaði hún hann um að hann ætlaði að fremja aðra ránstilraun. Á þeim forsendum var hann dæmdur í annað gæsluvarðhald til 20. mars. Landsréttur taldi að ekki þjónaði almannahagsmunum að hafa manninn í gæsluvarðhaldi og felldi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness úr gildi í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Héraðsdómur taldi að manninum væri ekki treystandi og óábyrgt að hann gengi laus en önnur öxi og rörbútur fundust hjá honum við húsleit. Landsréttur var hins vegar ekki á sama máli og taldi að það þjónaði ekki almannahagsmunum að maðurinn væri í gæsluvarðhaldi og var því úrskurðurinn felldur úr gildi í gær, miðvikudaginn 4. mars.

Í greinargerð Lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að ránið sé einnig rannsakað sem tilraun til manndráps. Maðurinn sveiflaði öxi að feðgunum í versluninni þegar þeir reyndu að fá hann til að fara út. Hann endaði á því að kasta öxinni í átt að þeim en hún endaði í glerskáp við hlið hurðarops sem þeir stóðu í. Árásin endaði fyrir utan verslunina þar sem feðgarnir króuðu manninn af þar til lögregla kom á staðinn.

Víkurfréttir ræddu við feðgana í úrabúðinni. Sjá hér.

Nánar má lesa um málið á ruv.is.

Uppfært fimmtudagskvöld 5. mars:

Maðurinn var ekki fyrr kominn úr fangelsinu á Litla-Hrauni þegar hann rauk beint í verslun N 1 á Selfossi í dag, braut þar og bramlaði og var ógnandi þangað til starfsmaður þar kom honum út en hann lét ekki þar við sitja heldur fór inn í Nettó og braut þar líka og bramlaði. Stuttu síðar kom lögreglan og handtók manninn.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni. Ekki kemur fram hvort hann hafi verið vopnaður eins og þegar hann réðst inn í Úra- og skargripaverslun Georgs V. Hannah.

Maðurinn var í dag úrskurðaður í Héraðsdómi Suðurlands í gæsluvarðhald til 2. apríl.

Georg V. Hannah, Eggert sonur hans og Eygló kona hans ásamt viðskiptavini upplifðu óskemmtilega reynslu þegar hælisleitandi kom með öxi inn í búðina og ógnaði þeim með henni ásamt því að brjóta og bramla með henni inni í búðinni.