Árangri ólympíufara fagnað á Ránni um helgina
Gestakokkur verður á Ránni um helgina og boðið verður upp á girnilegan matseðil með áströlsku ívafi í tilefni frábærs árangurs Íslendinga á Ólympíuleikunum. Hljómsveitin Léttir sprettir heldur uppi stuðinu föstudags og laugardagskvöld.Gestakokkurinn, Kristján Gunnarsson, nam matreiðslu á Lækjarbrekku en hélt síðan til Melbourne í Ástralíu, þar sem hann hefur verið með annan fótinn síðustu ár. Hann vann þar á hinum ýmsu veitingastöðum, lengst af vann hann sem flökkukokkur fyrir umboðsskrifstofu sem sá um að senda matreiðslumenn á veitingastaði. Það gerði hann til að öðlast sem víðtækasta reynslu í ástralskri matargerð sem er reyndar mjög blönduð. Að sögn Kristjáns hefur austurlenskur matur alltaf verið vinsæll hjá Áströlum. „Ég hef sett saman fjölþjóðlegan matseðil, með austurlenskum áhrifum sem endurspeglar það sem er að gerast á veitingastöðunum í Ástralíu í dag. Hráefnið sem ég nota er til dæmis sæeyra sem ræktað er hér á landi en veiðist við strendur Ástralíu og er einstaklega vinsælt á veitingastöðum þar. Annað vinsælt hráefni er fiskurinn búri eða úthafskarfi og er hann einnig á matseðlinum í kryddblöndu frá Bali. Við á Ránni vonumst til að sem flestir láti sjá sig til að snæða óvenjulegan og góðan kvöldverð og skáli fyrir ólympíuförunum“, segir Kristján.