Annríki í umferðareftirliti
Lögreglan í Keflavík stöðvaði 14 ökumenn á vaktinni í gær og í nótt. Á dagvaktinni voru fjórir ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur og sá er hraðast ók mældist á 114 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.Aftur í gærkvöldi stöðvaði lögreglan fjóra ökumenn og þá mældust tveir á 123 km hraða þar sem hámarkshraðinn er 90 km.
Skömmu eftir miðnætti hafði lögreglan afskipti af tveimur ökumönnum bifhjóla en þeir mældust langt yfir leyfilegum hámarkshraða eða á 150 km hraða þar sem hámarkshraðinn er 90 km.
Undir morgun voru fjórir ökumenn stöðvaðir og sá er hraðast ók gaf bifhjólunum lítið eftir og mældist á 131 km hraða.
Þó aðstæður séu góðar og veðrið leiki við ökumenn þá er vissara að halda sér á réttum hraða annars gæti það komið illa við fjárhaginn, og það sem verra er, heilsuna.






