Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Annasamir dagar hjá björgunarsveitinni Þorbirni
Miðvikudagur 27. ágúst 2003 kl. 10:24

Annasamir dagar hjá björgunarsveitinni Þorbirni

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík var kölluð til sex sinnum frá laugardegi til mánudags. Á laugardag var björgunarskipið Oddur V. Gíslason fengið til aðstoðar hafnsögubátnum Villa við að snúa til flutningaskipinu Vytautas, sem var á útleið. Vegna hvassviðris réðst illa við skipið og var ákveðið að fresta brottför. Laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags var sveitin kölluð til aðstoðar eigendum einbýlishúss sem höfðu ætlað að skipta um þakjárn en náðu því ekki áður en fór að rigna. Björgunarsveitarmenn aðstoðuðu fólkið við að breiða segl og plastdúka yfir þakið. Einhverjar skemmdir urðu að völdum vatns. Að morgni sunnudags var sveitin aftur kölluð út þegar mb. Guðbjörg GK strandaði innan hafnar. Útkallið var afturkallað þegar verið var að undirbúa brottför á Oddi V. Gíslasyni, en hafnsögubáturinn Villi náði Guðbjörgu GK af strandstað. Um kl. 15:00 á sunnudag var Oddur V. Gíslason kallaður til aðstoðar við að snúa flutningaskipinu Vytautas og tókst nú að koma skipinu til hafs. Rétt fyrir miðnætti á sunndag barst aðstoðarbeiðni til sveitarinnar frá eiganda bifreiðar sem festist við Sandvík á Reykjanesi. Patrol jeppi sveitarinnar var sendur á staðinn og losaði bílinn. Á mánudagsmorgun barst beiðni til sveitarinnar vegna umferðarslyss við Borganes þegar flutningabíll fór út af Borgarfjarðarbrúnni og hafnaði í sjónum með þeim afleiðingum að ökumaðurinn lést. Sveitin sendi kafara á vettvang. Björgunarmenn komu til baka um kvöldmatarleytið.

VF-ljósmynd/Agnar Guðmundsson: Oddur V. Gíslason dró Guðbjörgu af strandstað.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024