Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 18. september 2001 kl. 09:54

Andvirðið notað til að kaupa búnað í björgunargáminn

Björgunarsveitin Suðurnes fékk á dögunum höfðinglega gjöf, sem er landareign í Höfnum. Jörðin verður seld, að sögn Ragnars Sigurðssonar formanns björgunarsveitarinnar og andvirði hennar notað til kaupa á búnaði í björgunargáminn.
Gefendur eru Guðríður Guðmundsdóttir, Ráðhildur Guðmundsdóttir, Magnúsína
Guðmundsdóttir og Pálína Sigríður Einarsdóttir fyrir hönd dánarbús Magnúsar Einarssonar og Önnu Einarsdóttur Scusa. „Við ákváðum að gefa jörðina, sem er 621 fermetri að stærð, til minningar um bræðurnar Einar og Guðmund Ingvar Magnússyni og eiginkonur þeirra, Guðrúnu Þorsteinsdóttur og Guðlaugu Jónsdóttur. Bræðurnir voru fæddir í Vesturhúsum, en svo hét húsið sem stóð á jörðinni, og bjuggu þar síðan með fjölskyldum sínum. Einar lést árið 1939 og Guðrún lést í Reykjavík nokkrum áratugum síðar. Guðmundur og Guðlaug fluttu úr Vesturhúsum 1946“, segir Magnúsína Guðmundsdóttir einn gefenda.
Björgunarsveitin Eldey í Höfnum hefur fram að þessu haft aðsetur í kofa á umræddir jörð, en sveitin hefur nú sameinast Björgunarsveitinni Suðurnes og hefur öll starfsemi Eldeyjar verið flutt í björgunarmiðstöðina við Holtsgötu. „Við höfum því selt húsið í Höfnum og nýtist andvirðið vel
því nú stöndum við í miklum fjárfestingum vegna stofnunar neyðarveitar með Brunavörnum Suðurnesja“, segir Ragnar.
Hlutverk Neyðarsveitarinnar er að bregðast við stórslysum þar sem fjöldi slasaðra er umtalsverður t.d. vegna flugslysa eða rútuslysa. Smíðaður hefur verið gámur fyrir búnað sem Björgunarsveitin Suðurnes er að kaupa nú á haustmánuðum. „Í gámnum verður allur fyrstuhjálparbúnaður til að fást við að 100 manna slys og er eini sinnar tegundar á landinu, enn fremur eru í honum tvær færanlegar greiningarstöðvar í uppblásnum tjöldum“, segir Ragnar.
Þann 25. september, kl. 20 verður kynningarfundur fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa í björgunarsveitinni. Þá verður tvenns konar dagskrár, annars vegar fyrir 16 - 23 ára og fyrir 23 ára og eldri. Nýliðaþjálfun er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024