Ánægt starfsfólk í menntastofnunum Voga
- Skólapúlsinum tekinn á starfsfólki leik- og grunnskóla Voga
Niðurstöður starfsmannakannana sem gerðar voru meðal starfsfólk leikskólans og grunnskólans í Vogum, ásamt foreldrakönnun grunnskólans, liggja nú fyrir. Kannanir þessar voru unnar af Skólapúlsinum, sem sérhæfir sig í gerð þeirra. Það er skemmst frá því að segja að niðurstöður allra þessara kannana eru jákvæðar, segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, í fréttabréfi sem hann gefur út vikulega í Vogum.
„Þær eru góður vitnisburður þess að í báðum skólunum okkar fer fram metnaðarfullt, faglegt og öflugt starf, þar sem starfsfólkið er almennt ánægðara en landsmeðaltalið gefur til kynna. Foreldrar grunnskólabarnanna virðast einnig vera ánægðari með starfsemi skólans en landsmeðaltalið,“ segir bæjarstjórinn í fréttabréfinu.
Starfsmannakannanirnar mæla 15 almenna þætti, auk þess sem starfsmenn sem stunda kennslu beðnir um að gera upplýsingar um 28 þætti. Svarhlutfall var í öllum tilvikum hátt, yfir 80%.
„Niðurstöðurnar eru því vel marktækar og færa okkur heim sanninn um að starfsemi beggja skólanna sé til mikillar fyrirmyndar,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í fréttabréfinu.