Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ánægjulegur áfangi í öryggismálum í Helguvík
Þriðjudagur 24. mars 2009 kl. 17:34

Ánægjulegur áfangi í öryggismálum í Helguvík

Sá ánægjulegi árangur hefur náðst á framkvæmdasvæði Norðuráls í Helguvík að ekki hefur ekki komið til neinna fjarveruslysa  á því röska ári sem liðið er  frá upphafi framkvæmda þar. Búið er að vinna yfir 300 þúsund vinnustundir við verkefnið síðan framkvæmdir hófust 14. mars 2008 og hefur tekist að fyrirbyggja hvers konar alvarleg vinnutengd slys.

Viðhorf starfsfólks lykilatriði
Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Norðuráls Helguvíkur, segir að árangurinn megi þakka þeirri skýru stefnu að öryggi hafi algjöran forgang við framkvæmdir á svæðinu, markvissri fræðslu og þeirri árvekni og ábyrgðarkennd sem starfsfólk Norðuráls og verktaka hafi auðsýnt í verki.
„Við lítum svo á að öryggissjónarmið séu ófrávíkjanleg forsenda árangurs og viljum ná markmiðum um slysalausar framkvæmdir með samstilltu átaki allra hlutaðeigandi. Mestu skiptir að starfsmenn hljóti þá fræðslu sem þeir þarfnast til að geta tekið ábyrgð á eigin öryggi.“

Gunnar segir það hafa sýnt sig að jákvætt viðhorf og viðmót starfsfólks sé algert lykilatriði. „Fólkið hefur tekið áróðri okkar um öryggismál einstaklega vel, sýnt skilning á nauðsyn þess að gera sífellt betur og látið verkin tala.“

Allir verkþættir áhættumetnir
Tilhögun öryggismála í Helguvík er sú að öllum sem starfa á svæðinu er  skylt að sækja öryggisnámskeið áður en þeir snerta á nokkru verki. Norðurál sér um almenna öryggisfræðslu en verktakar annast sérhæfða fræðslu varðandi einstök verk. Gert er áhættumat á öllum verkþáttum og til þess er ætlast að sérhver starfsmaður þekki áhættuþættina við sitt starf til hlítar. Meðan á verki stendur er svo áhættumatið yfirfarið og nýjum upplýsingum bætt við ef þurfa þykir.

Samstarf um eftirlit
Eftirlit með öryggismálum er í höndum öryggisfulltrúa Norðuráls, verktaka og verkstjóra. Þeir gæta meðal annars að líkamsbeitingu starfsmanna, ástandi tækja og verkfæra, persónuhlífum og áhættuhegðun, t.d. hvort starfsmaður freistist til að stytta sér leið framhjá ítrasta öryggi. Ef eitthvað er athugavert, er strax gripið inn í. Gunnar segir að unnið sé með hliðsjón af íslenskum lögum og öryggisreglum en í sumum tilvikum sé gengið mun lengra, til dæmis varðandi fallvarnir.


Mynd: Árangrinum í Helguvík var fagnað með kökusamsæti fyrir starfsfólk Norðuráls og verktaka á staðnum. Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Norðuráls Helguvíkur, sker fyrstu tertusneiðina fyrir Reidar J. Óskarsson, sem er starfsmaður á svæðinu. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024