Ánægjulegar niðurstöður úr samræmdum prófum í Vogum
Nú eru komnar niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum sem lögð voru fyrir nemendur í 4., 7. og 10.bekk. Niðurstöður þeirra benda til þess að skólinn sé á hárréttri leið að settu markmiði. Prófin veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda, og nýtast skólanum í áframhaldandi vinnu í íslensku, ensku og stærðfræði en það eru einu greinarnar sem prófað er úr. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
Undanfarin ár hefur frammistaða nemenda á samræmdum prófum farið batnandi enda hefur skólinn markvisst nýtt niðurstöður þeirra og þær verið leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur eins og þeim er ætlað.
Í fjórða bekk er skólinn langt yfir landsmeðaltali í stærðfræði. Sjöundi bekkur er á réttri leið en eru heldur sterkari í stærðfræði. Tíundi bekkur er langt yfir landsmeðaltali í ensku, við landsmeðaltal í íslensku og stutt er í land í stærðfræði.
Þessar ánægjulegu niðurstöður eru afrakstur góðrar samvinnu nemenda, kennara og foreldra, segir Svava Bogadóttir skólastjóri Stóru-Vogaskóla.