Ánægja með þjónustu Grindavíkurbæjar
Um 89 prósent þeirra íbúa Grindavíkur sem tóku þátt í þjónustukönnun á vegum Capacent Gallup eru ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustu bæjarfélagsins. Af þeim eru 51 prósent mjög ánægðir og 39 prósent frekar ánægðir. 6 prósent segjast vera hvorki né og þrjú prósent eru frekar óánægðir og 2 prósent mjög óánægðir. Í samanburði við hin 19 sveitarfélögin sem tóku þátt í könnuninni er Grindavík í 6. sæti og hefur hækkað upp um 7 sæti síðan árið 2014. Ánægjan hefur vaxið á milli ára þar sem mjög ánægðum fjölgar og mjög óánægðum fækkar.
Þeir þættir sem Grindvíkingar eru helst óánægðir með eru þjónusta við eldri borgara, fatlaða og þjónusta grunnskólans. Í samanburði við hin 19 sveitarfélögin er Grindavík í 15. sæti þegar kemur að þjónustu grunnskólans. Í leikskólamálum er Grindavík í 4. sæti sé miðað við önnur sveitarfélög sem tóku þátt í könnuninni. Um 80 prósent sögðust í könnuninni vera ánægð eða mjög ánægð með gæði umhverfisins í nágrenni heimilis síns. Þá eru 76 prósent ánægð eða mjög ánægð með þjónustu við barnafjölskyldur.