Ánægður með fylgisaukningu
Kristinn Þór Jakobsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ, segist ánægður með að flokkurinn hafi aukið fylgi sitt frá því hann bauð síðast fram 2002 úr átta prósentum í fjórtán. Það hafi þó ekki dugað til að ná inn öðrum manni í kosningunum á laugardaginn en ekki hafi vantað mikið uppá.
„Við lögðum áherslu á það í okkar kosningabaráttu að efla lýðræði innan bæjarstjórnar og veita íbúum aðgang að bæjarfulltrúum. Við munum standa fyrir þeim málflutningi innan bæjarstjórnar og reyna höfða til allra framboðanna þar sem samvinna innan bæjarstjórnar var einnig á stefnuskrá þeirra,“ sagði Kristinn í samtali við VF í morgun
–Kom niðurstaða kosninganna ykkur á óvart í ljósi þess hvað skoðanakannanir höfðu sýnt?
„Já, þetta sýnir hversu öflugur Sjálfstæðisflokkurinn er í Reykjanesbæ þegar kosningavélin þeirra fer í gang. Þetta er greinilega vel skipulagður flokkur,“ svaraði Kristinn sem vildi koma á framfæri þökkum til þeirra kjósenda sem mættu á kjörstað og sérstaklega þeim sem greiddu Framsóknarflokknum atkvæði.
---
VFmynd/Hilmar Bragi - Kristinn Þór Jakobsson og eiginkonan Ólöf Sveinsdóttir greiða atkvæði á laugardaginn.