Ánægður með ákvörðun ríkisstjórnar að fallast á tillögu bæjarins
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er ánægður með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í morgun að fallast á hugmyndir Reykjanesbæjar til velferðarráðherra að byggja nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili og samhliða því leggja niður Hlévang. Árni sagði vinnu við verkefnið nú fara á fullt og framkvæmdir ættu að geta hafist strax á nýju ári.
Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að byggt yrði nýtt 30 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ en að hjúkrunarheimilið Hlévangur yrði notað áfram og fjölbýlum þar breytt í einbýli. Fyrr í sumar lagði bæjarstjórn Reykjanesbæjar fram tillögu við velferðarráðherra um að byggja nýtt 60 rýma heimili og leggja niður Hlévang. Á þetta var fallist og verður gengið til samninga við bæjarfélagið á þeim forsendum.
Heimamenn munu annast hönnun og byggingu hjúkrunarheimilisins í samræmi við viðmið ráðuneytisins, fjármögnunin verður tryggð með láni frá Íbúðalánasjóði en Framkvæmdasjóður aldraðra stendur undir húsaleigu til sveitarfélagsins og reiknast hún sem ígildi stofnkostnaðar.