Án ökuréttinda með vopn og fíkniefni
Ökumaður sem ók sviptur ökuréttindum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni reyndist hafa fleira óhreint í pokahorninu. Í bifreið sinni var hann með hafnarboltakylfu, piparúða og fjaðurhníf.
Maðurinn heimilaði leit á heimili sínu og þar fundust fíkniefni í ísskáp og frysti. Lögregla haldlagði vopnin og efnin auk nær hundrað þúsunda króna, sem voru í vörslu mannsins, vegna gruns um að um ágóða af fíkniefnasölu væri að ræða.