Álykta að flutningur Isavia til Hafnarfjarðar sé bráðabirgðalausn
Fréttir af fyrirhuguðum flutningi á höfuðstöðvum Isavia til Hafnarfjarðar koma bæjarráði Suðurnesjabæjar á óvart, að því að segir í afgreiðslu bæjarráðs sem fundaði nú síðdegis. „Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir sér grein fyrir því að mygla á vinnustað er alvarleg og getur kallað á að grípa þurfi til aðgerða með hraði. Hins vegar getur bæjarráð ekki ályktað annað en að flutningur til Hafnarfjarðar sé bráðabirgðalausn og þegar sé farið að huga að uppbygginu höfuðstöðva Isavia við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í samræmi við áform um þróun lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar,“ segir orðrétt í afgreiðslu fundarins.
Það segir einnig: „Í nýlegu deiliskipulagi Isavia fyrir vestursvæði Keflavíkurflugvallar er gert ráð fyrir mikilli uppbygginu flugtengdrar þjónustu og þar á meðal eru nokkrar lóðir fyrir skrifstofubyggingar. Þá liggur fyrir að aðstaða starfsfólks Isavia er orðinn þröng í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og jafnframt öryggisrök fyrir því að stjórnsýsla flugvallarins sé í húsnæði á svæðinu sem er ótengt flugstöðinni. Því væri bæði rökrétt og skynsamlegt skref hjá Isavia að bregðast við húsnæðisvanda höfuðstöðva sinna með byggingu stjórnsýsluhúss við alþjóðaflugvöllinn sem er hægt að sérsníða að þörfum félagsins. Jafnframt má benda á það hagræði sem myndi hljótast í rekstri Isavia til lengri tíma með því að hafa höfuðstöðvarnar á sama stað og lang mesta starfsemi fyrirtækisins fer fram.
Samkvæmt nýlegri kynningu á skýrslu Kadeco um uppbyggingu og skipulag lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar, telur bæjarráð það rétta í stöðunni að Isavia færi höfuðstöðvar sínar á svæði Keflavíkurflugvallar.“