Álversframkvæmdir í Helguvík komnar á fullt
Framkvæmdir eru nú í fullum gangi í Helguvík vegna álvers Norðuráls. Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri samskipta hjá Norðuráli, segir í Morgunblaðinu í dag að um þessar mundir séu nálægt eitt hundrað manns við vinnu á svæðinu og mun starfsmönnum fjölga jafnt og þétt á komandi mánuðum.
Fjöldi þeirra nær væntanlega hámarki um mitt næsta ár þegar áætlað er að um 800 manns vinni að framkvæmdum við byggingu álversins. Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) steyptu fyrstu undirstöðurnar að kerskála álversins í Helguvík 12. september síðastliðinn.
Norðurál í Helguvík fékk á dögunum úthlutað heimildum til að losa gróðurhúsalofttegundir frá úthlutunarnefnd losunarheimilda vegna væntanlegs álvers. Þá veitti Umhverfisstofnun álverinu starfsleyfi í seinasta mánuði.
Að sögn Ágústs eiga nú öll leyfi að liggja fyrir vegna verksmiðjunnar. Allar áætlanir gera ráð fyrir að fyrsti áfangi álversins verði tekinn í notkun haustið 2010 og muni kosta 80-90 milljarða króna. Markmiðið er að álverið verði byggt í tveimur áföngum.
Ráðgert er að fyrsta áfanga verði lokið árið 2010 og að framleiðslugeta álversins verði þá 150 þúsund tonn á ári. Öðrum áfanga á síðan að ljúka árið 2015 og verður framleiðslugetan þá komin í 250 þúsund tonn á ári. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson / frá framkvæmdasvæði Norðuráls í Helguvík í gærdag.