Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Álver í Helguvík; Orkumálin ekki lengur flöskuháls í málinu.
Fimmtudagur 1. júní 2006 kl. 11:59

Álver í Helguvík; Orkumálin ekki lengur flöskuháls í málinu.

Viljayfirlýsing um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík var undirrituð í morgun á milli Norðuráls, Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt samkomulaginu er fyrsti áfangi álversins allt að 150.000 tonn og mun Hitaveita Suðurnesja leitast við að sjá um að útvega allt að 150 megavött en Orkuveita Reykjavíkur allt að 100 MW. Stefnt er að afhendingu orku fyrir fyrsta áfangann árið 2010.

Með þessu má segja að sá flöskuháls sem hingað til hefur verið í málinu sé úr sögunni, en hingað til hefur það ekki legið ljóst fyrir hvort næg orka yrði tryggð til verkefnisins. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitveitu Suðurnesja segir næga virkjunarmöguleika fyrir hendi og fagnar aðkomu OR að málinu. „Álver í Helguvík yrði gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulíf hér á Suðurnesjum og að sama skapi álitlegt tækifæri til frekari þróunar og fjárfestinga í nærliggjandi orkulindum“, sagði Júlíus.

Logan W. Kruger, forstjóri Century Aluminum segir samkomulagið stórt skref í framgangi áætlana fyrirtækisins varðandi Helguvík. Fyrirtækið muni áfram vinna í anda þeirrar stefnu að þróa starfsemina í vel skilgreindum áföngum til að trygga að verkefnið falli sem best að hagsmunum Íslendinga og íslensks hagkerfis. Staðsetningin sé mjög ákjósanleg með tilliti til allra aðstæðna og Helguvík hafi verið besti kosturinn af þeim sem skoðaðir voru á sínum tíma.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir orkumálin hafa verið stóra spurningamerkið varðandi framgang málsins og stjórnvöld hafi tilgreint orkuöflun sérstaklega sem helsta Þránd í Götu verkefnisins. „Nú virðist þeirri hindrun hafa verið rutt úr vegi og því fögnum við“, sagði Árni.


Mynd: Aðilar undirrita samninginn í morgun. VF-mynd:elg
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024