Álver í Helguvík myndi skila nær sexföldum útflutningstekjum loðnu á hverju ári
Fróðlegt er að bera saman útflutningstekjur af loðnuafla við tekjur af álvinnslu, nú þegar loðnuveiðar standa sem hæst.
Fyrsti áfangi álvers í Helguvík mun skila svipuðum útflutningstekjum og 135 þús. tonna loðnuafli, miðað við þær forsendur sem ríktu árin 2008 og 2009.
Leyfilegur heildar loðnuafli til Íslendinga á þessu ári er 90 þúsund tonn, en verður vonandi aukinn.
Fullbúið álver í Helguvík myndi því samvara útflutningstekjum af 520 þúsund tonnum af loðnu eða nær sexföldum útflutningstekjum af leyfilegum loðnuafla Íslendinga á þessu ári.
Í meðfylgjandi töflu sést útflutningur stóriðju og helstu nytjafiska í tonnum og verðmæti árið 2009.
90 þús. tonna útflutningur áls myndi skila svipuðum útflutningstekjum og 116 þús. tonna loðnuafli, m.v. þær forsendur sem ríktu á síðasta ári. Ef tölur ársins 2008 eru notaðar fæst sú niðurstaða að 90 þús. tonn af áli jafngildi 158 þús. tonna loðnuveiði hvað útflutningstekjur varðar.
Þá er gaman að segja frá því að þegar álver hefur risið í Helguvík verður bæði mögulegt að bræða ál og loðnu í Helguvík.