Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Álver í Helguvík: Búið að ræða við Garðmenn og utanríkisráðuneyti um stærri lóð
Fimmtudagur 27. apríl 2006 kl. 20:30

Álver í Helguvík: Búið að ræða við Garðmenn og utanríkisráðuneyti um stærri lóð

Í dag undirrituðu Norðurál og Reykjaneshöfn, sem er í eigu Reykjanesbæjar, hafnarsamning og lóðarsamning vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Samkvæmt hafnarsamningnum mun Reykjaneshöfn sjá Norðuráli fyrir nauðsynlegri hafnaraðstöðu í Helguvík. Meðal annars verður gerður nýr 200 m viðlegukantur sem notaður verður ásamt núverandi viðlegukanti sem er 150 m að lengd.

Norðuráli verður heimilt að koma fyrir og starfrækja byggingar og tækjabúnað á hafnarbakkanum og á hafnarsvæðinu til að þjónusta álverið. Um 30.000 fermetra athafna- og geymslusvæði verður útbúið á hafnarsvæðinu fyrir aðföng og framleiðsluvörur álversins og gengið verður frá reit undir súrálssíló.

Samkvæmt lóðarsamningnum leigir Reykjaneshöfn Norðuráli landspildu í nágrenni við hafnarsvæðið, en auk þess hefur verið rætt við sveitarfélagið Garð og utanríkisráðuneytið um mögulegt viðbótarland norðan landspildunnar. Nákvæm staðsetning álversins innan Helguvíkursvæðisins verður ákveðin með hliðsjón af tæknilegum hönnunarforsendum, niðurstöðum umhverfismats og ákvörðunum sem teknar verða í sameiningu af hlutaðeigandi aðilum. Með því að taka frá nægilegt landrými eru nægir valkostir um mismunandi staðsetningu álversins tryggðir. Norðurál verður ábyrgt fyrir því að viðhalda svæðinu í því ástandi sem starfsleyfi kveður á um.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að samningarnir feli í sér uppbyggilegar lausnir sem muni koma báðum aðilum til góða. „Við horfum fram á afar verðmætt sóknarfæri fyrir íbúa Reykjanesbæjar og nágrannabyggða til að hér skapist fleiri og fjölþættari vel launuð störf og fjölmörg ný tækifæri verði til fyrir vertaka og þjónustuaðila á svæðinu, sérstaklega með hliðsjón af brottför vanarliðsins á þessu ári.“

Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls, segir samningana vera mikilvægan áfanga á leiðinni að fyrirhuguðu álveri í Helguvík. „Við höfum jafnframt unnið að undirbúningi orkusamnings við Hitaveitu Suðurnesja og nú er verið að kanna mögulega aðkomu Orkuveitu Reykjavíkur að þátttöku í útvegun á orku til álversins í Helguvík.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Norðuráli.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024