Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Alveg skýrt að farbannið fengist ekki framlengt
Þriðjudagur 12. febrúar 2008 kl. 17:23

Alveg skýrt að farbannið fengist ekki framlengt

Lögreglunni á Suðurnesjum þótti ekki ástæða til að fara fram á framlengingu farbanns yfir Pólverjanum sem grunaður er um að hafa ekið á Kristinn Veigar Sigurðsson. Farbannið rann út kl. 16 í dag og er hinn grunaði því frjáls ferða sinna. Að sögn Eyjólfs Kristjánssonar, fulltrúa hjá lögreglunni, lá fyrir sú afstaða dómsyfirvalda, eftir að farbannið var framlengt síðast í lok janúar, að það yrði eigi gert aftur.

„Afstaða dómsins var alveg ótvíræð í þá veru við hefðum þennan tíma til að taka ákvörðun um saksókn. Það var alveg skýrt að við fengjum farbanninu ekki framlengt aftur. Því mátum við það þannig að ekki væri ástæða til að flækja málið frekar og fara með það fyrir dóm í dag,“ sagði Eyjólfur í samtali við VF.

Eyjólfur segir að rannsókn málsins muni halda áfram. Beðið sé niðurstöðu DNA rannsóknar en það geti tekið 4 - 6 vikur að fá þá niðurstöðu í hendur og engin leið hafi verið að tryggja farbann í þann tíma. Sönnunarstaða í  slíkum málum sé mjög erfið og flókin. Ekki sé nóg að finna bílinn, einnig þurfi að færa sönnur á hver hafi ekið honum og hvort það hafi verið gert með saknæmum hætti, svo með hrað- eða ölvunarakstri.
Aðspurður segir Eyjólfur það full djúpt í árina tekið að rannsóknin málsins hafi strandað á DNA rannsókninni.

„Við munum halda rannsókninni áfram og í þeirri von að komast til botns í málinu með einum eða öðrum hætti. Reynist þessi maður líklegri en hann er í dag verður að fylgja því eftir gagnvart pólskum yfirvöldum, verði hann farinn úr landi,“ sagði Eyjólfur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024